Fjórar íslenskar kvikmyndir í tökur í sumar

Fjórar íslenskar kvikmyndir með framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands munu fara í tökur í sumar, víðsvegar um landið. Hin íslensk/danska Þrestir, sem er nýjasta kvikmynd hins margverðlaunaða leikstjóra Rúnars Rúnarssonar mun fara í tökur á Vestfjörðum þann 14. júlí. Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar fer í tökur víða um land þann 21. júlí. Bakk undir leikstjórn Gunnars Hanssonar og Davíðs Óskars Ólafssonar mun einnig fara í tökur víða um land í lok júlí. Hrútar, nýjasta kvikmynd leikstjórans Gríms Hákonarsonar fer svo í tökur í Bárðardal þann 18. ágúst.

AlgjorSveppi

Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum

Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum er fjórða kvikmyndin í hinum vinsæla kvikmyndabálk Braga Þórs Hinrikssonar um Sveppa og vini hans. Í Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum finna vinirnir Sveppi og Villi út að erkióvinur þeirra sé enn á ný að reyna landyfirráð. Í þetta skiptið hefur hann byggt dómsdagsvél  sem getur komið af stað jarðskjálftum og eldgosum. Sveppa, Villa og Góa tekst að koma sér í fylgsni hans sem er staðsett undir hinum ævaforna eldgíg Eldborg. En að komast þangað er aðeins brot af púslinu. Þeir verða að eyðileggja vélina til að Ísland eigi von.

Bragi Þór Hinriksson og Sverrir Þór Sverrisson skrifa handritið að myndinni og eru einnig aðalframleiðendur hennar. Framleiðslufyrirtæki er Little Big Films og meðframleiðslufyrirtæki er SAMfilm. Með aðalhlutverk fara Sverrir Þór Sverrisson, Guðjón Davíð Karlsson og Vilhelm Anton Jónsson. Tökur munu fara fram í Reykjavík, Snæfellsnesi, Eldborgargíg, Vatnshelli, Grímsnesi, Kerinu, Hellisheiði,  Dalakoti, Krýsuvíkurhrauni, Rauðhólum og í stúdíóum RÚV. Áætlað er að frumsýna myndina í október á þessu ári.

Þrestir

Þrestir mun verða önnur kvikmynd Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd, en fyrsta mynd hans Eldfjall var frumsýnd á Director’s Fortnight á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2011. Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvoru öðru. Með aðalhlutverk fara Atli Óskar Fjalarsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson. Tökur munu fara fram á Flateyri, Suðureyri, Ísafirði og Bolungarvík á Vestfjörðum.

Rúnar leikstýrir og skrifar handritið að Þröstum ásamt því að vera einn af aðalframleiðendum myndarinnar. Aðrir aðalframleiðendur eru Birgitte Hald og Mikkel Jersin fyrir hönd hins nýstofnaða framleiðslufyrirtækis Nimbus Iceland og meðframleiðendur eru Lilja Ósk Snorradóttir fyrir hönd Pegasus og Igor Nola fyrir hönd Mp Film. Þrestir hlaut 90 milljón króna framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð sem samsvarar um 34% áætlaðs framleiðslukostnaðar. Kvikmyndin hefur t.a.m. einnig fengið 66 milljón króna styrk frá danska kvikmyndasjóðnum og 24 milljón króna styrk frá Norræna kvikmynda og sjónvarpssjóðnum.

Bakk

Bakk verður fyrsta leikstjórnarverkefni á kvikmynd í fullri lengd hjá bæði Gunnari Hanssyni og Davíð Óskari Ólafssyni. Söguþráður Bakk er svohljóðandi: Árið 1981 bakkaði Þorsteinn faðir Gísla á bíl í kringum Ísland til fjáröflunar fyrir Þroskahjálp og setti heimsmet í leiðinni.  Árið 2013 ætla Gísli og Viðar, æskuvinir frá Hellissandi, að slá heimsmet Þorsteins og safna í leiðinni fyrir góðan málsstað. Þessi hugmynd hljómar spennandi í fyrstu, en fljótlega fara vankantar hennar að koma í ljós.

Gunnar Hansson skrifar handritið að Bakk og Árni Filippusson og Davíð Óskar Ólafsson eru aðalframleiðendur hennar fyrir hönd Mystery Íslands. Með aðalhlutverk fara Gunnar Hansson, Víkingur Kristjánsson og Saga Garðarsdóttir. Tökur munu fara fram víðsvegar um landið, nánar tiltekið í Reykjavík, á Hellissandi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn og Vík í Mýrdal.

Hrútar

Hrútar mun verða önnur kvikmynd Gríms Hákonarsonar í fullri lengd, en fyrsta mynd hans Sumarlandið var frumsýnd hér á landi í september 2010. Hrútarsegir frá Gumma og Kidda, sem eru bræður á sjötugsaldri sem búa hlið við hlið í afskekktum dal og leggja stund á sauðfjárrækt. Fjárstofn bræðranna þykir mjög merkilegur og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Bræðurnir hafa lengi eldað grátt silfur saman og hafa ekki talast við í um 40 ár. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Tökur munu fara fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Grímur leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum og Grímar Jónsson er aðalframleiðandi myndarinnar fyrir hönd Netop Films. Hrútar hlaut 90 milljóna króna framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð sem er rétt rúmlega helmingur af áætluðum framleiðslukostnaði myndarinnar. Kvikmyndin hefur einnig hlotið tæplega 21 milljón króna styrk frá danska kvikmyndasjóðnum.