Fer Luhrmann í Kung Fu?

Hinn ástralski Baz Luhrmann, sem leikstýrði nú síðast The Great Gatsby og hefur gert myndir eins og Moulin Rouge og Rómeó og Júlíu, á í viðræðum um að leikstýra kvikmynd sem byggð verður á bandarísku sjónvarpsþáttunum Kung Fu frá áttunda áratug síðustu aldar.

david carradine

Í upprunalegu sjónvarpsþáttunum lék David Carradine Shaolin munkinn Kwai Chang Caine, sem þvælist um sveitir Bandaríkjanna í leit að týndum hálfbróður sínum.

Þættirnir voru á dagskrá ABC sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku á árunum 1972 – 1975. Munkurinn fékk reglulega endurlit í leiftursýn til daga sinna þegar hann var í þjálfun sem Kung Fu meistari, en þar var hann kallaður „unga engisprettan“ af lærimeistara sínum.

Myndin mun gerast í Kína þar sem Caine leitar að föður sínum, en endar í fangelsi þar sem hann þarf að berjast fyrir lífi sínu. Ef Luhrman tekur verkefnið að sér verður þetta fyrsta hasarmyndin sem leikstjórinn leikstýrir.