Peter O´Toole látinn

peter o´tooleLeikarinn Peter O’Toole, sem sló í gegn í mynd David Lean Lawrence of Arabia, er látinn, 81 árs að aldri.

Hann lést í gær laugardag á Wellington spítalanum í London, eftir langvarandi veikindi.

O´Toole tilkynnti á síðasta ári að hann væri hættur að leika.

Snemma á ferlinum varð leikarinn tákngervingur nýrrar kynslóðar Hollywood leikara sem drukku stíft og létu mikið fyrir sér fara.

„Við byrjuðum sjöunda áratuginn með látum,“ sagði hann eitt sinn. „Ég, [Richard] Burton, Richard Harris; við gerðum það á almannafæri sem aðrir gerðu heima fyrir á þeim tíma, og gera núna á sviði. Við drukkum á almannafæri, og kunnum á gras.“

O´Toole er talinn hafa  fæðst í Connemara í County Galway í Írlandi, og var síðan búsettur í London.

Hann sló í gegn eins og áður sagði í Lawrence of Arabia, og lék síðan í myndum eins og Goodbye Mr Chips, The Ruling Class, The Stunt Man og My Favourite Year.

Hann fékk heiðursóskarsverðlaun árið 2003, eftir að hafa átta sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna án þess að vinna þau, sem er met.

Hann lætur eftir sig tvær dætur, Pat og Kate O’Toole, úr hjónabandi sínum með Siân Phillips, og soninn Lorcan O’Toole, sem hann átti með Karen Brown.

Stikk: