Pfeiffer var í sértrúarsöfnuði

michelle pfeifferKvikmyndaleikkonan Michelle Pfeiffer, 55 ára, sagði í samtali við nýjasta tölublað tímaritsins Stella sem fylgir breska dagblaðinu The Sunday Telegraph að hún hafi eitt sinn verið í sértrúarsöfnuði. Hún segir þar að mjög stjórnsamt fólk hafi tekið yfir líf hennar þegar hún flutti fyrst til Hollywood snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Fólkið hafi verið einhverskonar einkaþjálfarar og hafi trúað á hæfileikann til að lifa án matar og vatns, svokallaðan breatharanisma, og þau hafi sett Pfeiffer á kúr sem „enginn getur fylgt,“ sagði Pfeiffer.

„Þau unnu með lóð og settu fólk í megrunarkúra. Þau voru grænmetisætur.“

„Þau trúðu því að fólkið sem væri á æðsta vitundarstiginu væru breatharianistar,“ bætti Pfeiffer við.

Hún bætir við að hún hafi ekki búið lengi hjá fólkinu í hvert skipti, en þau hafi viljað hafa hana sífellt lengur, og hafi þurrausið hana fjárhagslega.

Pfeiffer segir ekki frá því í viðtalinu hvernig hún losnaði úr prísundinni.