Dagur án hláturs er dagur án tilgangs

Charlie Chaplin er án efa frægasta nafn kvikmyndasögunnar og hefur hann komið heilu kynslóðunum til þess að hlægja, gráta, hugsa, skapa og vona. Í dag eru 124 ár frá fæðingardegi hans og ætlum við að heiðra hann með nokkrum orðum, myndum og myndböndum.

Chaplin fæddist í Bretlandi þann 16. apríl árið 1889 og var skírður Charles Spencer Chaplin. Hann var aðeins 10 ára þegar hann byrjaði í leiklist og 17 ára að aldri var hann byrjaður að vinna sína fyrstu sigra með leikflokki sínum og var sá leikflokkur góð æfing og undirstaða fyrir komandi hlutverk síðar meir.

Fyrsta kvikmynd Chaplin hét Making a Living og var hún frumsýnd í febrúar árið 1914. Sama ár, aðeins 25 ára að aldri gerði hann 34 myndir til viðbótar, ári seinna bætti hann svo 14 myndum í safnið, það skal þó tekið fram að þetta voru stuttar myndir. Fyrsta kvikmyndin hans í fullri lengd kom út árið 1921 og hét The Kid og sló hún rækilega í gegn og eftir það lá leiðin upp á við og fljótt varð hann einn þekktasti leikari heims og sá fyrsti sem sameinaði grín og drama.

Chaplin tók að sér flest burðarhlutverk í kvikmyndum sínum og sá hann um að leikstýra, leika, framleiða, skrifa og einnig gerði hann oft tónlistina.

Frægustu kvikmyndir Chaplin eru The Sircus, City Lights, The Kid, Monsieur Verdoux, The Great Dictator, Lime Light, Modern Times og The Gold Rush.

Chaplin lést á heimili sínu í Sviss á jóladag árið 1977, 88 ára að aldri.

„Dagur án hláturs er dagur án tilgangs“ – Charlie Chaplin.