Channing Tatum í næstu Fincher mynd?

Kvikmyndavefurinn Cinema Blend birti í gær frétt um að hinn ungi og efnilegi Channing Tatum yrði mögulega í næstu kvikmynd hins magnaða leikstjóra David Fincher, 20.000 Leagues Under the Sea, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Jules Verne frá árinu 1870. Talið var í fyrstu að Brad Pitt myndi leika aðalhlutverk myndarinnar en nú þykir ljóst að hann hafi helst út úr lestinni og því hafi David Fincher snúið sér að hinum unga Channing Tatum.

Það má með sanni segja að Fincher hafi átt stóran þátt í að skapa feril Brad Pitt en hann hefur leikstýrt honum í stórmyndum á borð við Seven, Fight Club og The Curious Case of Benjamin Button.

Það verður því spennandi að sjá hvort þetta nýja samband þeirra David Fincher og Channing Tatum verði jafn farsælt og samband Fincher við Brad Pitt. Ekki er þó ennþá komið á hreint hvenær þessi næsta kvikmynd Fincher komi út en líklegt þykir að hún muni slá í gegn eins og flestar aðrar myndir kappans.