Fjölskylda skurðlæknis tekin sem gíslar

Tveir gæðaleikarar, þau Dylan McDermott og Toni Collette munu leika aðalhlutverkin í nýjum prufuþætti fyrir CBS sjónvarpsstöðina, sem kallast Hostage, eða Gíslar.

Hostages er framleiddur af ofurframleiðandanum Jerry Bruckheimer og eins og búast má við af honum þá verður þetta spennutryllir af dýrustu sort sem fjallar um lífið í stjórnkerfinu í Washington D.C. og forseta Bandaríkjanna.

Jeffrey Nachmanoff skrifar handritið og framleiðir einnig ásamt fleirum.

McDermott mun í þættinum leika alríkislögreglumanninn Duncan, sem er í miðju mikils samsæris, að því er The Hollywood Reporter greinir frá.

Collette leikur Ellen, skurðlækni sem framkvæmir leynilega skurðaðgerð á forseta Bandaríkjanna, en nokkru síðar er fjölskylda hennar tekin sem gíslar ( en þaðan er nafn þáttarins fengið ).

Ef prufuþátturinn tekst vel  verður spennandi að sjá hvort að framleidd verður full sjónvarpssería.