Illir andar snúa aftur

Nú er eitt ár liðið síðan tilkynnt var að framleiða ætti framhald myndarinnar The Last Exorcism, og nú er kynning á myndinni The Last Exorcism Part II hafin, en hún verður frumsýnd síðar á þessu ári.

Mörgum er enn í fersku minni þegar auglýsingayfirvöld í Bretlandi, ASA, Advertising Standards Authority, bönnuðu plakat fyrri myndarinnar, en það þótti sýna stúlku sem misnotuð hafði verið kynferðislega. Sjá bannaða plakatið í frétt the Guardian af málinu hér.

Nú hefur verið birt glænýtt plakat fyrir framhaldsmyndina. Það er mjög svipað því bannaða, en heldur hófstilltara, þó að stúlkan sé vægast sagt til alls líkleg, svo ekki sé meira sagt.

Fyrri myndin varð óvæntur smellur á árinu 2010 og vann meðal annars Empire verðlaunin. Myndin var kynnt sem heimildarmynd um skottulækninn og særingarmanninn Cotton Marcus sem óvænt hittir á sjúkling sem er raunverulega haldinn illum anda  – þið getið getið ykkur til um hvernig fer fyrir Cotton á endanum.

Þessi framhaldsmynd gerist þremur mánuðum eftir atburði fyrri myndarinnar og fjallar áfram um hina andsetnu Nell Sweetzer, sem Ashley Bell leikur. Hún man lítið eftir því hvað henti hana í fyrri myndinni, en nú koma djöflarnir aftur í hana og eru illvígari en nokkru sinni fyrr.

Daniel Stamm snýr aftur í leikstjórastólinn en hrollvekjumeistarinn Eli Roth framleiðir.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 15. mars nk.