Enginn gulur kafbátur

Óskarsverðlaunaleikstjórinn Robert Zemeckis, sem nú síðast gerði myndina Flight með Denzel Washington, mun ekki endurgera teiknimynd Bítlanna Yellow Submarine, eða Gula kafbátinn.

Upprunalega átti að byrja að taka myndina, sem átti að vera teiknimynd að sjálfsögðu, árið 2011 með þeim Cary Elwes, Dean Lennox Kelly, Peter Serafinowicz og Adam Campbell í hlutverkum Bítlanna, en nú er líklega útséð með að af þessu verði.

Þetta má lesa út úr í samtali sem Total Film átti við Zemeckis. Þegar leikstjórinn er spurður að því hvort að hann gæti hugsað sér að halda áfram með verkefnið eftir að Disney hætti við framleiðslu þess, sagði Zemeckis, „Það hefði verið frábært að endurvekja Bítlana. En líklega er best að þessi mynd verði ekki endurgerð – það er alltaf áhætta að gera endurgerðir. Það verður erfiðara og erfiðara [ að gera kvikmyndir]. Eins og ástatt er í kvikmyndaiðnaðinum í dag þá er erfitt að vera ástríðufullur. Það erfiðasta fyrir kvikmyndagerðarmann sem er að komast á efri ár er að segja „Hve mikið af þessum skít get ég þolað?“ Þetta er erfitt, ég get aðeins gert þetta ef ég er með handrit í höndunum sem ég hef trú á. Eins og Flight.“

Líklega þarf engan að undra að Zemeckis og Disney hafi ekki náð saman. Árið 2011 framleiddi Zemeckis teiknimyndina Mars Nees Moms fyrir 150 milljónir Bandaríkjadala, en myndin þénaði aðeins 20 milljónir dala í miðasölunni. Árið 2009 gerði hann enn aðra teiknimynd, A Christmas Carol, sem tapaði 40 milljónum dollara. Það er þó ekki svo að Zemeckis og Disney hafi skilið endanlega að skiptum því leikstjórinn og Disney vinna nú að framhaldi hinnar vinsælu myndar Zemeckis, Who Framed Roger Rabbit?