Múmían verður endurræst!

Þá er það staðfest – Len Wiseman hefur verið fenginn til þess að endurræsa The Mummy franchise-ið með því að setjast í leikstjórastólinn og koma út mynd fyrir árið 2015. Myndin mun bera nafnið The Mummy og verður fyrst og fremst hrollvekja (!) í stað ævintýramyndar líkt og síðustu myndir byggðar á svipuðum söguþræði.

Flestir kvikmyndanördar muna eftir The Mummy sem kom út árið 1999 (ég held ég eigi ennþá Mummy bol inni í skáp) sem skartaði Brendan Fraser og Rachel Weisz í aðalhlutverkum. Myndinni gekk það vel að The Mummy Returns og The Mummy: Tomb of the Dragon Emperor voru gefnar út 2003 og 2008. Wiseman ætlar hins vegar að sækja efnivið í upprunalegu Mummy myndina sem kom út árið 1932 sem er talsvert óhugnalegri.

Wiseman hefur áður leikstýrt Underworld og Underworld: Evolution ásamt Total Recall endurgerðinni sem kom út í ár (úff). Í apríl í ár komu fregnir þess efnis að áætlað væri að gefa út The Mummy árið 2014 en erfiðlega gekk að fá leikstjóra til þess að taka að sér verkefnið og því óljóst hvort eitthvað yrði úr verkinu. Nú er ljóst að Wiseman hefur verið fenginn til verksins og tökur munu hefjast á næsta ári.

Hvernig líst ykkur á þetta? Persónulega er ég hrifinn af því að gera hrollvekju byggða á The Mummy franchise-inu, en eitthvað segir mér að Len (bölvaður) Wiseman sé ekki rétti maðurinn í verkið.

Stikk: