Nei… eitt stórt NEI!

Aldrei skaltu vanmeta heilbrigðu en samt sem áður þroskaheftu fíflin sem hlæja að öllu því sem þér finnst vera ófyndið og skilja svo ekkert hvað þú sérð sniðugt við hnyttið, bitastætt grín sem hefur í alvörunni eitthvað að segja. Það eru óþroskuðu mannaparnir með sífelldan túttuglampa í augunum sem leiða til þess að hörmulegar aulagrínmyndir séu gerðar með reglulegu millibili. Ég er alls ekki að segja að ég sé ekki með aulahúmor, en ég hef þó minn standard eins og annað eðlilegt fólk. Og til þess að eiga séns á því að geta verið með aulahúmor þarf maður svolítið að vinna fyrir honum til að geta unnið við hann. Þess vegna hef ég aldrei (ítrekað: ALDREI) áttað mig á því hvers vegna „grínisti“ eins og Jay Chandrasekhar fær að leikstýra gamanmyndum. Ég hef slysast til þess að horfa á langflestar myndirnar sem hann hefur gert og í besta falli flissað sex sinnum í gegnum fjórar bíómyndir og hlegið tvisvar. Bæði skiptin yfir Beerfest, sem er skásti saurinn í hrúgunni.

Þeir sem elska Broken Lizard-hópinn eiga augljóslega eftir að kynnast ansi mörgu í heiminum, eins og til dæmis því að stíga út fyrir dyr og uppgötva heilbrigt félagslíf. Ég efa svosem ekki að þessi grúppa samanstandi af viðkunnanlegum fávitum en ég er hættur að hafa þolinmæði fyrir því hversu oft þeir hafa sóað mínum tíma. Lesendur þurfa að afsaka það ef minnið hjá mér er ekki upp á sitt besta hvað þessar ræmur varða, því það má vel vera að einhverjar myndir frá Chandrasekhar hafi verið lélegri en þessi nýjasta, en eins og staðan er hjá heilabúi mínu í dag þá er The Babymakers sú allra versta sem þessi maður eða nokkur annar meðlimur úr BL-hópnum hefur komið nálægt.

Vont handrit, vondur söguþráður, leiðinlegir leikarar (að utanskildum leikstjóranum, sem er pínu kaldhæðnislegt) og enn leiðinlegri brandarar. Myndin setur sér þau markmið að vera pínulítið heillandi, skemmtileg alla leið og reynir eins og hún getur til að kreista út eins mörgum sæðisbröndurum og hægt er án þess að ganga yfir grófu línuna. Þetta hrynur allt saman vegna þess að þetta er allt svo flatt, niðurdrepandi og heiladautt án þess að það séu nokkur merki um skemmtanagildi. Myndin er nógu pínleg í atriðunum sem rembast við það að vera fyndin en í dauðu köflunum versnar hún ennþá meir, eins og hún nenni einfaldlega ekki að gera neitt af viti annað en að drepa tíma. Meira að segja Adam Sandler myndi kalla þetta metnaðarleysi af hæstu gráðu. Lélegu myndirnar hans sýna að minnsta kosti meiri lit og karakter heldur en þessi gerir. Það er líka munur á forvitnilegum mistökum og bara úldnum, illa lyktandi skít sem þig langar til að kasta í barnaperra. Þessi mynd fer í seinni flokkinn.

Hræðilegar gamanmyndir sem tala svona niður til áhorfenda eru með því versta sem hægt er að sitja yfir. The Babymakers lítur út eins og tilraun gerð af flóðmenntuðum snillingum, til þess að sérstaklega kanna hvort það sé einhvers staðar til markhópur fyrir svona sorp. Þegar fullt af fólki tekst í sameiningu að búa til gamanmynd sem er hvorki fyndin né skemmtileg í eina góða mínútu, þá er kominn tími á hópuppsagnir. Ég er ekki einu sinni svo viss um að Broken Lizard-aðdáendur sjái margt gott í þessu. Þeim er frekar ráðlagt að horfa á uppáhalds klámmyndina sína. Ég efa nefnilega ekki að það séu fleiri brjóst þar og betri nýting á sæði.

Seinasta skot myndarinnar segir samt allan sannleikann og lýsir best áliti mínu.


  (2/10)