Þrálát Þorparaímynd

Eins og fjölmargir Íslendingar þá skellti ég mér nýverið á hina frábæru Avengers í kvikmyndahúsum. Myndin sló rækilega í gegn og varð bókstaflega þriðja söluhæsta kvikmynd allra tíma. Myndin fékk mig til að hugsa um meginstrauminn og um erkitýpur kvikmynda. Joss Whedon skrifar listilega vel og fannst mér myndin búa yfir einni best skrifuðu kvenpersónu í meginstraumshasarmynd síðustu ára. En hvað um skúrkinn Loka? Hann kom hérlendum áhorfendum eflaust kunnuglega fyrir sjónir, að hluta til vegna goðsagnar hans í norrænu goðafræðinni, en einnig að stórum hluta vegna þess hve oft við höfum séð nánast nákvæmlega sama skúrkinn.

Ég vil leiða talið að umræðu sem margir kannast eflaust við, því að málið hefur lengi verið til staðar í kvikmyndalegri gagnrýni. Aðrir hafa ef til vill ekkert leitt hugann að því eða þá lagt tvo og tvo saman, en sama hvaða hóp lesendur þessarar greinar tilheyra finnst mér réttast að vekja athygli á umræðunni, sérstaklega af gefnu tilefni vinsælda Avengers. Umræðan er fyrst og fremst gagnrýni á eina langlífustu og skaðlegustu stereótýpu Hollywood; kvenlega og teprulega skúrkinn.

Þemað verður að viðurkennast; skúrkar eru helst grannir, veiklulegir, snyrtilegir, heiglar, mjúkraddaðir, vel klæddir, hændir að mæðrum sínum, elska óperu, listir, persneska ketti… listinn heldur áfram. Einnig hafa þeir oft lítinn áhuga eða beinlínis andstyggð á konum, eða eru blátt áfram samkynhneigðir: Buffalo Bill í Silence of the Lambs, fjölmargir skúrkar úr Hitchcock smellum og James Bond myndum, Ozymandias í Watchmen og illi prinsinn Edward í Braveheart. Disney hefur einnig verið iðið að halda staðalímyndinni við í gegnum árin: Skari í Konungi Ljónanna, Radcliffe í Pókahontas, Prince John í Robin Hood, Séra Kan í Skógarlífi, Kobbi Kló í Pétur Pan, Facilier í Prinsessan og froskurinn. Þeir eiga það sameiginleg það sem vefsíðan „tvtropes“ segir svo listilega um erkitýpuna: „The Sissy Villain, as his name would suggest, is a man whose heart is as twisted as his wrist is limp.“


Það liggur við að hægt sé að skynja litaþema.

Áður en lengra er haldið vil ég endilega koma því á hreint að ég er alls ekki að segja að samkynhneigðir menn séu teprulegir og snyrtilegir mömmustrákar sem elska óperur. En það eru dæmigerð og ýkt einkenni fordómafullu staðalímyndarinnar sem ríkir í miðlum. Og það versta er að þessum einkennum er ætíð hent í skúrkana, á meðan hetjurnar á móti eru erkitýpur karlmennsku og karlægra gilda. Þetta gengur í raun allt út á að karlmennska sé góð og göfug en kvenleiki illur og spilltur, sérstaklega þegar hann finnst í körlum. The Maltese Falcon stillir hinum mjög svo karlmannlega Sam Spade (Humphrey Bogart) upp á móti þremur „teprulegum“ skúrkum, hvorki meira né minna. Clint Eastwood í Dirty Harry er eins karlmannlegur og þeir gerast, stillt upp á móti Scorpio morðingjanum. Oft er hægt að „útskýra“ þessa persónusköpun með svart-hvítt áhrifunum; með því að gera skúrkinn kvenlegan er verið að gera hetjuna enn karlmannlegri. En því er þessu aldrei snúið við?

Einhverjar breytingar hafa þó átt sér stað, Tom Cruise var hin nýja hugsandi hasarhetja í Mission Impossible myndunum í stað dæmigerða vöðvatröllsins, Keeanu Reeves í Matrix er annað dæmi um kvenlega karlmannshetju. Einnig sjást núna mjög svo kvenlegir og „nördalegir“ ungir strákar í hetjuhlutverkunum sem ekki tíðkaðist áður; sjá hlutverk Michael Cera, Shia LaBeouf og Tobey Maguire. Já, það hefur komið fram mun meiri fjölbreytni á síðustu árum heldur en áður. En kjarni málsins er sá að þessi persónusköpun er enn of eðlileg, hún finnst ennþá í allt of mörgum Hollywood myndum og er enn allt of sjálfsögð.

Hver gæti verið ástæðan fyrir seiglu týpunnar? Ein kenning væri sú að týpan sé orðin föst í sessi, að rithöfundar hugsi ekki lengur „gerum hann kvenlegan“ heldur „gerum hann skúrkalegan.“ Annað sem hægt er að benda á er að týpan sé í raun ekki al-neikvæð, því algengt er orðið að skúrkarnir séu taldir töff. Því er ég ef til vill hálfpartinn sammála, þar sem skúrkar hafa alltaf verið í mínu uppáhaldi. Þeir skapa áflog og knýja því frásögnina áfram, leikarar virðast skemmta sér sem mest í skúrkahlutverkunum, í söngleikjum fá þeir skemmtilegustu og svölustu lögin o.s.frv. Einnig finnst fjölmörgum konum kvenleiki í karlmönnum aðlaðandi, og það hefur því leitt til þess að skúrkar teljist kynþokkafullir af mörgum aðdáendum.


Því hann er í raun gæðablóð, og mun sætari þegar hann brosir.

En þetta viðhorf er samt sem áður algjörlega úr sér gengið og óhollt samfélaginu í heild sinni. Ef að aðdáendur laðast að og hafa gaman að skúrkum með kvenlega og/eða samkynhneigða eiginleika, þá mun sömu áhrifanna gæta þegar hetjurnar öðlast loksins slíka persónusköpun. Og það sem meira er, þá hættir kvenleiki og samkynhneigð að tengjast illsku, hatri, græðgi og heigulshætti. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá vinna vondu karlarnir aldrei og fá alltaf fyrir ferðina þökk sé yfirburðum karlmennskunar, því hvað er karlmannlegra en að tuska til tepru?