Syndandi sorp með skoppandi túttum

Mér líður alltaf eins og sjúskuðu fórnarlambi þegar ég horfi á myndir sem sýna hvorki metnað né áhuga fyrir neinu sem sést á skjánum. Mesta hugmyndaflugið í kringum þessa mynd virðist hafa farið í það að bæta við öðru „D-i“ í upprunalega titilinn, bæði til þess að vera með fyrirsjáanlegan húmor og vísa í stór brjóst – því fitan í kringum mjólkurkirtla kvenna er eitt af aðeins tvennu sem skiptir einhverju máli í þessari mynd. Hitt er augljóslega blóð.  Þetta var skondið fyrst en nú er mér farið að líða eins og ég hafi gægst inn í nektardraumóra hjá ofbeldissjúkum fermingardreng. Þessum sem elskar limlestingar í bíói og horfir á allsberu stelpurnar með kodda yfir klofinu.

Fyrri Piranha-myndinfékk töluvert betri viðtökur en mér fannst hún eiga skilið. Hún var alls ekkert spes en í samanburði við þetta framhald myndi ég kalla hana hátt í fullkomna djók/horror-afþreyingu. Ég hefði kannski átt að vita betur fyrirfram og láta þetta eiga sig, enda fylgir greinilega alltaf einhver óbærilega slæm framhaldsmynd á eftir endurgerðunum sem Alexandre Aja leikstýrir. Á eftir The Hills Have Eyes (sem var reyndar tussufínn viðbjóður) kom hræðileg framhaldsmynd. Sama saga með Mirrors (ullabjakk!) og núna Piranha. Þegar bíómynd er slæmt afrit af annarri mynd sem er ekki svo góð, þá er hvergi hægt að fara en á botninn. Hafsbotninn í þessu tilfelli. Rétt hjá viðurstyggðinni Jaws: The Revenge.

Það er yfirleitt í tísku hjá framhaldsmyndum að toppa forvera sinn með því að vera stærri og flottari. Venjulega leiðir það til þess að innihaldið kæfist harkalega, en að minnsta kosti er þá reynt að þóknast áhorfendum. Piranha 3DD er alveg eins og fyrri myndin, nema allt sem var leiðinlegt í henni er þrefalt leiðinlegra hér. Það þýðir ekki einu sinni að afsaka lélegu brellurnar lengur. Söguþráðurinn er drasl, persónurnar (ef persónur skal kalla) eru brandari, greddan þreyttari og engum leikara er þess virði að hrósa (ekki einu sinni vannýttu töffararnir Christopher Lloyd og Ving Rhames – sem hefðu pottþétt átt að fá stærri hlutverk). Það er ekkert fjör í atburðarásinni (án grins, ekki neitt!), húmorinn er rembist alltof fast og það er ekki neitt gert með ofbeldið eða drápssenur sem fyrri myndin sá ekki miklu betur um og með meiri tennur (pun intended). Þarna er komin aðalástæðan til þess að forðast þetta ógeð, ekki síst ef þú ert (af einhverjum ástæðum) aðdáandi fyrri myndarinnar. Þar að auki er þessi gerð fyrir miklu minni pening, og maður finnur alveg fyrir því!

Ég, eins og svo margir aðrir, er mikill brjóstaunnandi, en það þýðir ekki að ég sætti mig við það að hörmungarmynd nuddi andlitinu mínu upp við túttur endalaust. Notkunin á brjóstaskotunum verður hvort eð er miklu ódýrari þegar maður fattar að þetta er allt gert til þess að kveikja á greddunni hjá ungum piltum og fylla upp í lengdina á myndinni. Hún er heldur ekki nema tæpar 70 mínútur, en síðan ætlaði ég ekki að trúa því hversu mikið er teygt á kreditlistanum, bæði með misheppnuðum tökum og ónotuðum senum (?). Gegnsæ redding og mjög heimskuleg sem slík.

Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að sjá þessa mynd. Það er allt vont við hana og meira að segja David Hasselhoff ætti að skammast sín fyrir það að hafa breytt sér í enn stærri brandara heldur en hann er nú þegar. Áður hló maður með honum þegar Hoffarinn kom sér í gestahlutverk, því maður bjóst ekki eins mikið við því að hann þiggur hvað sem er en núna er ekki hægt annað en að hlæja að honum. Hann gerir sér samt eflaust ekki grein fyrir því. Svo skulum við heldur ekki gleyma því að Hasselhoff gerir EKKI RASSGAT í myndinni, annað en að vera hann sjálfur, og tala um sjálfan sig og hvað hann er/var merkilegur. Og vera ófyndinn.

Það eru til myndir sem ég hata meira, en þessi er ekki þess virði að svitna yfir, líklegast vegna þess að enginn svitnaði við gerð hennar. Ég finn ekki fyrir kröftuga hatrinu en ég vorkenni myndinni með biturleika og ógleðistilfinningu. Ef ég þyrfti að velja á milli þess að horfa aftur á Piranha 3DD eða upplifa 80 mínútna ræpu, þá þigg ég frekar ræpuna því þá gæti ég gert eitthvað gagnlegt á meðan. Eins og að lesa Séð og Heyrt. Ég vil ekki hugsa um þessa mynd aftur. Mig langar til að gleyma henni hér og nú til að spara mér hausverk og leiðinlegar minningar þar sem ég kíkti oftar á klukkuna en þykir eðlilegt þegar manni leiðist.

Botneinkunn? Já, takk. Einn Píranafiskur af tíu (ó)mögulegum.