Karlar, konur og vasaklútamyndin

Hvað er ‘konumyndin’ og hvers vegna fylgir henni ímyndin af kvenáhorfendum með vasaklút? Það verður rætt hér innan skamms en tökum sem fyrst dæmi um slíka áhorfendur konumynda innan konumyndanna sjálfra. Fyrsta dæmið ætti að vera áþekkt en það er úr konumyndinni góðkunnugu Sleepless in Seattle. Þar eru persónur Meg Ryan og Rosie O’Donnel, erkileikkonur konumyndanna, bestu vinkonur og vilja gera fátt annað saman heldur en að horfa á klassísku konumyndina An Affair to Remember aftur og aftur. Þær tala með myndinni, kunna hana nánast utan að og skiptast á kleenex með tárin í augunum. Lykilatriðið má finna þegar önnur þeirra segir (skælandi að sjálfsögðu) „Men just don’t get this movie.“ Það er einmitt málið, konan horfir á þessar myndir ein eða með öðrum konum, mennirnir skilja þetta ekki. Svipuð dæmi má finna í myndinni He’s just not that into you og í nýju imbaþáttunum New Girl þar sem Jess skælir yfir Dirty Dancing.

Þá vil ég leiða umræðuna að sígildri konumynd/vasaklútamynd, sannkallaðri „woman’s picture,“ en það er myndin Stella Dallas frá árinu 1937. Myndin er yndislega grátbrosleg og togar í tárakirtla flestra kvenna, en hvað um karla? Myndin fjallar í stuttu máli um millistéttarstelpuna Stellu sem giftist vel stæðum verksmiðjueiganda og eignast með honum dótturina Lauren. Hjónin fjarlægast með árunum en mæðgurnar verða sem nánastar. Grófleg millistéttarhegðun Stellu veldur því oftar en einu sinni að hún valdi Lauren skömm hjá hástéttarvinum sínum, þegar Stella svo kemst að því ýtir hún dóttur sinni frá sér með lygum og fölsku, köldu viðhorfi. Undir lokin giftist Lauren ríkum hástéttardreng á meðan Stella stendur fyrir utan í rigningunni og fylgist með, blaut, fátæk og einsömul en hamingjusöm yfir hlutskiptum dóttur sinnar og eigin fórn.

Það er annað atriði í Stellu Dallas sem svipar mikið til þess sem ég minntist á í Sleepless in Seattle. Snemma í myndinni þegar Stella og tilvonandi eiginmaður hennar eru í tilhugalífinu fara þau á stefnumót. Þau fara í bíó og sjá kvikmynd um ríkt og fallegt fólk að verða ástfangið. Stella lifir sig hugfangin inn í myndina með tárin í augunum, á meðan unnustinn er annars hugar og er algjörlega fyrir utan upplifunina.

Lokaatriðið í rigningunni svipar líka til þessa, þar sem lögregluþjónn ætlar að reka flækinginn hana Stellu í burtu frá glugganum, en hún biður hann um að hinkra augnablik, að hún vilji bara sjá kossinn. Hljómar það ekki einkar mikið eins og „Þetta er besti parturinn“ þegar einhver horfir á kvikmynd? Í minnsta er það öruggt að segja að endi þessarar myndar sé frægt og alræmt vasaklúta-atriði.

En hvað er það sem fékk Stellu og allar hinar til að gráta yfir sínum myndum, og konur yfir þeirra myndum? Hvað er tilefnið? Í öllum dæmunum hér á undan hefur tilfellið verið elskhugar að ná saman. Þess vegna lætur karlinn sig fátt um finnast því að slíkt skiptir hann ekki höfuðmáli. Því væri hægt að koma fram með tillögu um gang þessara mála. Hún er sú að hér er einfaldlega um að ræða mýtuna um að það eina sem kona vill í lífinu er karlmaður, en að karlmenn vilja svo margt annað fremur í sínu lífi. Þeir vilja sofa hjá mörgum fallegum konum en konur vilja hinn eina rétta. Raunveruleikinn hlýtur að vera sá að hvoru tveggja má finna hjá báðum kynjunum. Partur af manneskju vill ef til vill finna lífsförunaut og verða ástfanginn, en partur er hræddur við að vera bundinn niður og vill lifa lífinu á annan hátt. Þetta álít ég eiga jafnt við karla og konur. Málið er að hugmyndafræðin hefur skipt þessu upp í tvo póla og eignað hvoru kyninu aðeins einn. Þess vegna gráta þessar kvenpersónur af löngun þegar þær sjá kvikmyndapersónur finna ástina sína. Það er ekki þar með sagt að karlar gráti ekki yfir myndum, en hvenær sást það síðast gerast í kvikmynd?

Forvitnilegast er nefnilega að í öllum fyrrnefndum dæmum um konumyndir eru kvenpersónurnar innan myndanna að hegða sér svona. Myndirnar eru að segja kvenáhorfandanum hvernig honum eigi að líða. Hér er tilvalið að minnast á ummæli frá kvikmyndafræðingnum Slavoj Zizek, hann hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði kvikmyndina vera hið eiginlega pervertíska listform af því að hún gefur þér ekki það sem þú þráir, heldur segir hún þér hvernig þú átt að þrá. Það er bókstaflega verið að mata áhorfandann með upplýsingum um það hvernig hann á að bregðast við myndinni. Sannkölluð innsaumun, eða suture, eins og það kallast í fræðibókum. Hugtakið innsaumun vísar í hvernig við skynjum það að vera sett inn í ákveðinn stað eða sjónarhorn í kvikmynd, frá því sjónarhorni skoðum við svo skáldaðan heim kvikmyndarinnar. Kvikmyndir þurfa ekki að sýna okkur sannleikann, heldur aðeins segja okkur frá sínum eigin sannleika sem við svo fúslega meðtökum. Konur í kvikmyndum að gráta yfir konum í kvikmyndum er aðeins eitt dæmi af mörgum um frjálslega speglun kvikmynda á raunveruleikann.