Krúttleg kitla fyrir nýja Hosoda-mynd

Fyrsta myndefnið úr nýjustu kvikmynd hins magnaða leikstjóra, Mamoru Hosoda, hefur litið dagsins ljós í fyrstu kitlunni fyrir myndina The Wolf Children Ame & Yuki. Fyrir þá sem eru ekki jafn miklir anime-nerðir eins og ég, skal ég segja ykkur stutt frá náunganum:

Hosoda braut sér leið í teiknimyndaleikstjórn með fyrstu seríunni af Digimon-þáttunum og fyrsta (og besta) hluta kvikmyndarinnar Digimon: The Movie. Um bil var hann jafnvel áætlaður leikstjóri Howl’s Moving Castle áður en Hayao Miyazaki tók við. Árið 2006 gaf hann út hina stórkostlegu The Girl Who Leapt Through Time, og fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda, áhorfenda og hlaut jafnvel japönsku kvikmyndaverðlaunin. Myndin var upphaflega gefin út í fáum bíóhúsum en stuttu eftir frumsýningu buðust margir til að borga fullt verð til að sjá myndina standnandi þegar allar sýningar voru uppseldar. Árið 2009 tókst honum að sanna sig enn frekar með Summer Wars, sem er best lýst sem heimsins viltasta og skemmtilegasta ættarmóti. Myndin fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda.

Nýjasta kvikmynd Hosoda, The Wolf Children Ame & Yuki (Ōkami Kodomo no Ame to Yuki ), er örlítið öðruvísi en fyrri verk Hosoda. Þetta er fyrsta myndin sem hann og Satoko Okudera gera sem er ekki með ívafi vísindaskáldskaps, heldur er myndin beinhörð fantasía,  innblásin af ævafornum goðsögnum þjóðar þeirra. Myndin fjallar um Hönu sem verður ástfangin af, og giftist varúlfi. Þau eignast tvö börn, sem erfa yfirnáttúrulegu einkenni föður síns í blandi við móður þeirra, sem þau skíra í höfuðið á það sem einkenndi ársíðirnar þegar þau fæddust- stúlkuna Yuki (snjór) og piltinn Ame (rigning). Eftir að faðirinn deyr ákveður Hana að flytja með börnunum á afskekt dreifbýli til að ala þau utan áhrifa og athygli stórborgarinnar.

Eins og stiklan gefur til kynna lítur myndin út fyrir að vera ofurkrúttleg fjölskyldumynd- ég þori jafnvel að veðja að þetta verði alveg gífurleg vasaklútamynd. Ég er vægast sagt fáránlega spenntur yfir þessari kvikmynd því Hosoda er einn uppáhalds leikstjórinn minn. Hann er meistaralega góður með sjónræna frásögn og myndirnar hans skera sig frá mörgum öðrum í svipuðum dúr á marga vegu. Myndirnar hans innihalda vanalega magnaðar og mjög mennskar persónur, frábærlega strúktúraða söguþræði og heilmikið skemmtanagildi. Myndunum hans er best lýst sem indie-teiknimyndum um venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum- aðstæðurnar skapa alltaf persónuleg og brennandi áhugaverð átök.

Ef ykkur vantar góða, skemmtilega og uppliftandi ræmu til að glápa á í páskafríinu þá mæli ég eindregið með myndunum hans Summer Wars og The Girl Who Leapt Through Time (treystið mér, þær eru mjög aðgengilegar jafnvel ef þú fílar ekki anime). Hafa lesendur kanski séð eitthvað eftir Hosoda, og hvernig lýst ykkur á kitluna?