Kvalafyllstu dauðdagar allra tíma!

Það er ekki leiðinlegt að enda árið á enn einum tryllta topplistanum, sem að þessu sinni mætti kalla tröllvaxna Notenda-Tíu. Núna er innihald listans ekki byggt alfarið á skoðunum mínum heldur hef ég safnað saman ýmsum tölvupóstum og kommentum frá vissum álitsgjöfum og raðað upp eftir skoðunum meirihlutans. Þá fá allir að vera með, þannig séð.

Að vísu kemur það svolítið upp úr þurru hvað listinn í rauninni gengur út á. Undanfarna daga hef ég aðallega einblínt (hér og hér) á kvikmyndir sem komu út á þessu árinu en núna verður hrært aðeins til í formúlunni og rennt yfir það sem fólki finnst hafa skarað fram úr kvikmyndasögunni eins og hún leggur sig.

Dauðinn er ekki regluleg umræða í kringum áramótin, en við gerum hana þá bara þannig hér á Kvikmyndir.is. Fyrr í desember báðum við notendur um að koma með sínar tillögur um kvalarfyllstu dauðdaga kvikmyndasögunnar. Í mörgum tilfellum svaraði fólk það sama, og þannig tókst mér að raða býsna nákvæmt upp í einn lista (ásamt nokkrum persónulegum viðbótum frá mínu eigin hjarta). Fólk minntist hins vegar lítið á ástæðurnar hvers vegna sínir völdu dauðdagar voru eftirminnilegir, en þar kem ég inn í til að fylla upp í eyðurnar. Engu að síður var ég mjög ánægður með magnið af póstum sem ég fékk.

En jæja, burt með þennan inngang. Öllum þyrstir í blóð og þess vegna kíkjum við á…


.:10 KVALARFYLLSTU DAUÐDAGAR KVIKMYNDASÖGUNNAR:.

(semsagt, þeir sem þið völduð)

10. Steiktar skinkur – Final Destination 3

Þessi bíómyndasería gengur ekki út á annað en að koma með runur af sársaukafullum dauðum. Þriðja myndin stendur samt mest upp úr mínu minni og ég held að flestir sem elska að tana sig hafi fengið smá áfall þegar þeir sáu hvað varð um gelgjurnar tvær í FD3. Ég er nú ekki tan-maður sjálfur, en ég get ímyndað mér að þetta sé eitt stórt: Á-i!!

9. FREEDOM!!! – Braveheart
(Spoiler, já)

Mel Gibson hafði svo sannarlega hreðjar í denn. Hvað meira þarf að segja? Drullastu til að horfa á Braveheart.

8. Sarlacc-pytturinn – Return of the Jedi

Áður en George Lucas eyðilagði Sarlacc-pyttinn með því að setja einhvern forljótan gogg á hann ásamt gripörmum, þá var þetta eitt það óhugnanlegasta sem maður gat fundið í gömlum, fjölskylduvænum æskumyndum. Svona orðar C-3PO þetta sjálfur:

„In its belly you will find a new definition of pain and suffering as you are slowly digested over a…thousand years.“

Shawn Ashmore fullyrti m.a.s. sjálfur í myndinni Frozen að þetta væri versti dauðdagi í heimi. Góða skemmtun, Boba Fett!

7. Letidýr Finchers – Se7en

Ekki beint dauði, en nógu helvíti nálægt því! Og ef menn eru að tala um þjáningu, þá er þetta nokkuð andskoti óþægilegt, myndi ég segja.

Leti-parturinn af dauðasyndamorðunum í Se7en er einn sá eftirminnilegasti og ábyggilega ein mest truflandi senan sem hefur sést í mynd eftir David Fincher.

6. Mickey Rourke-dauði nr. 2 – Sin City

Aldrei gera Mickey Rourke reiðan. Hann fer létt með að framkvæma hina sóðalegustu hluti án þess að fá vott af samviskubiti (sáuði Immortals t.d. bara núna nýlega?? Úff….). Í Sin City notar hann mjög grafíska og óvenjulega aðferð til að kvelja Elijah Wood, en það eina sem setur spurningarmerki við þetta val er að Wood sýnir engin viðbrögð við ofbeldinu. Ekki múkk! Það segir auðvitað kannski meira um karakterinn hans heldur en pyntinguna, en allavega er aðferðin nógu sjúk til að verðskulda eitt sæti á þessum lista.

Og já, Mickey Rourke-dauði nr. 1 myndi vera þegar hann drap Rutger Hauer, en þar sem við sáum aldrei beint hvað þetta var sem hann gerði, þá telst það ekki beint með.

5. Jesús laminn – The Passion of the Christ

Sennilega ætti þessi heima í fyrsta sætinu þar sem bókstaflega öll myndin sýnir eitt risastórt pyntingarklám. Hann Jesú hafði það ekki auðvelt, en það sem dregur myndina niður um fjögur sæti er ein ástæða: Hann ákvað þetta sjálfur og græddi slatta af athygli (og meira að segja heila bók um sig) eftirá.

4. Rífa kjaft?? – Mirrors
(Spoiler, en þetta er samt svo þekkt hvort eð er)

Alexandre Aja gerir sjaldan myndin án þess að gera eitthvað skuggalega ljótt við persónurnar sínar, og þótt það megi deila um það hvort ýmsir dauðar úr The Hills Have Eyes og (sérstaklega) Piranha eigi heima hér, þá er það Mirrors sem hreppir gullið, þökk sé senunnar þar sem Amy Smart (nakin í baði) lendir í því að hausinn hennar er rifinn hægt og rólega í tvennt og neðri kjálkinn alveg galopinn. Hún er alls ekki óaðlaðandi líkami, og þó svo að hausinn sé farinn í klessu, þá er enn gott í svæðinu sem er fyrir neðan hálsinn. Eða er grautarhausinn hreinlega of truflandi til að dást að öðru? Þið ráðið.

3. Þurr svampur – The Green Mile
(Semí spoiler)

Frank Darabont leynir þvílíkt á sér stundum og getur verið nokkuð grimmur andskoti. Fyrir utan lokasenuna í The Mist er þetta ábyggilega það ljótasta sem hefur sést í bíómynd frá honum. Percy nokkur Wetmore ákveður að vera extra leiðinlegur við fanga sem hann þolir ekki – rétt áður en aftaka í rafmagnsstólnum á sér stað – og kýs að bleyta ekki svampinn sem fer á höfuðið. Í kjölfarið verður sársaukinn tífallt meiri og dauðinn miklu, miklu subbulegri og tekur ekki eins fljótt af og hefði fanginn setið með blautan svamp. Á undan þessari senu hatar maður Percy alveg nógu djöfulli mikið, en eftir þessa senu myndi maður glaðlega skella honum í sama stól, bara til þess að bleyta ekki svampinn. Svakalegt grill. Hvaða sósa ætli fari best með því?

2. Laminn til óbóta með slökkvitæki – Irreversible

Ég skil bara ekki af hverju Gaspar Noé býr aldrei til barnavænar fjölskyldumyndir. Allavega er ýmislegt sem einkennir Irreversible, en fyrir utan nauðgunina frægu er fátt meira en drápsatriðið. Undirritaður hefur ekki fengið svona slæman samúðarhausverk síðan Melanie Lynskey og Kate Winslet lömdu gamla konu með múrstein í Heavenly Creatures. Ouch!!

1. Bless, tennur – American History X

Þessi fékk LANGflest atkvæðin, en það er ekki skrítið vegna þess að myndin er suddalega góð og auk þess sýndi Edward Norton að honum hefði aldrei verið meira alvara en þegar hann biður blökkumann um að leggjast á götuna, bíta síðan í gangstéttina svo hann geti búið til Picasso-verk úr andlitinu hans með því að sparka höfðinu niður. Myndin er suddalega kröftug en engin sena trompar þessa. Þrátt fyrir að vera dauði sem tekur ansi fljótt af (nema böðullinn sé virkilega, virkilega grimmur eða lélegur að sparka), þá er aðferðin gjörsamlega ómannleg. Þessar tvær sekúndur myndu vera sársaukafyllri heldur en nokkuð annað sem gat komið á undan í lífinu. Það óhugnanlegasta við tilhugsunina er líka að það er ekki 100% víst að viðkomandi drepist.

Svona dauða á aðeins að spara handa mestu kvikindum heims. Ég er að tala um þá sálarlausustu og veruleikafirrtustu (og ef þeir eru ofsalega snoppufríðir þá munu þeir hata böðulinn sinn enn meir). Eða mönnum eins og Dennis Dugan, ef hann skildi koma til að brjóta af sér.

„Runner-up“ dauðdagar sem fólk valdi:

Captain Rhodes – Day of the Dead
Dekk spólandi í feisið – Death Proof
Eitraða stöffið – Robocop
Étinn og meltur lifandi – Anaconda
Fimleikadauði – Final Destination 5
Flöskudauði – Pan´s Labyrinth
John Hurt mómentið – Alien
Keðjan – Saving Private Ryan
Keðjusög – Scarface
Lyftusenan – Drive
Sammi (Jackson) skyndilega étinn – Deep Blue Sea
„Upptakan“ – Law Abiding Citizen

Helstu álitsgjafar: (þessir komu með flestar uppástungurnar)

Axel Birgir Gústavsson
Ásgeir Eðvard Kristinsson
Guðni Teitur Björgvinsson
Hilmar Smári Finsen Árnason
Jónas Hauksson
Sigurjón Ingi Hilmarsson
Styrkár Þoroddsson
Þráinn H. Halldórsson

Þó svo að þetta sé listi ykkar notenda, þá er ég viss um að fullt vanti inn á hann. Endilega segið okkur frá þeim dauðum sem voru ekki taldir upp, þótt betra væri kannski að skella á spoiler-viðvörun.

Og já…
Gleðilegt ár öllsömul!!