Fín orgía. Gat verið betri, og verri

Ekki vissi ég að það væri svona svakalegt puð að skipuleggja gott kynsvall, en ég verð að segja að það er alls ekki ófrumleg hugmynd að byggja upp heila „fílgúdd“ gamanmynd í kringum þá hugmynd að fullt af vinum skipuleggja villta orgíu með sæmilegum fyrirvara. Ef þér finnst það hljóma eins og grunnt efni fyrir heila mynd í fullri lengd, þá hefurðu svo sannarlega rétt fyrir þér. Ég ætla samt ekki að segja að myndin hafi ekki unnið þokkalega úr því sem hún hafði.

A Good Old Fashioned Orgy er ekkert svakalega fyndin mynd, en hún heldur manni samt í undarlega góðu skapi út mestalla lengdina og fer ekki alltaf eftir hefðunum sem maður á von á. Maður heldur að maður viti nákvæmlega hvert sagan stefnir og hver boðskapur hennar er, en sem betur fer skilur hún eftir rými fyrir eina eða tvær óvæntar uppákomur og sýnir sjaldan þann ameríska aumingjaskap sem maður býst stundum við að hún geri. Myndin er nefnilega eitthvað svo mild miðað við titilinn og umfjöllunarefnið, en að minnsta kosti geldir hún sig ekki alveg.

Jason Sudekis er hiklaust ástæðan af hverju þessi mynd er ekki angandi af miðjumoði. Eftir að hafa komið nokkuð sterkur inn í myndum eins og Hall Pass (sem klárlega vanmetnasta gamanmynd Farrelly-bræðra) og Horrible Bosses er ég opinberlega farinn að skipa þessum manni í lúmskt uppáhald. Hann er viðkunnanlegur gaur, jafnvel þegar hann lætur eins og ofvaxinn unglingur. Kaldhæðnislega eru persónurnar sem hann leikur í öllum þremur 2011-gamanmyndunum frekar svipaðar. Þetta hefði næstum því getað allt verið sama persónan. Reyndar hefði mér verið slétt sama. Ég fíla þá persónu.

Afgangurinn á leikurunum lítur í fyrstu út eins og skraut en því lengra sem líður á myndina blómstra upp dýpri prófílar á aukapersónunum. Ég set kannski spurningarmerki við orðið „dýpri“ en tek engu að síður fram að handritið reynir að búa til alvöru persónur. Það heppnast misvel og maður steingleymir þeim öllum um leið og myndin er búin, en tilraunin er til staðar og það er meira en margar gamanmyndir af þessu tagi geta sagt.

Af aukaleikurunum er það Tyler Libine (úr Tucker & Dale vs. Evil, og þáttunum Reaper – ef einhver sá þá) sem er mest áberandi og sú lýsing hefur ekkert með mittisstærðina hans að gera. En þrátt fyrir sorglega dæmigerðan karakter er ýmislegt skondið sem kemur úr samspili hans við bæði Sudekis og flesta aðra. Leiðinlegt samt hvað þeim Will Forte og Lucy Punch er mikið sóað. Handritið lætur eins og það ætli að gera eitthvað skemmtilegt með þau, en fyrir utan skítsæmilegan indjánabrandara er voða lítið sem myndin græðir á því að hafa þau. Hundfúlt samt því þau geta bæði verið mjög fyndin.

Það er samt alltaf svekkjandi þegar titlarnir eru eftirminnilegri heldur en myndirnar sem bera þá, og þannig er tilfellið hér. A Good Old Fashioned Orgy er frábær titill sem lofar frekar miklu en skilar minna en heldur en markhópurinn gæti sætt sig við. Myndin er samt ekki laus við fína brandara. Nokkrir eru meira að segja nálægt því að vera brilliant og vellíðunartilfinningin í lokin smitast svolítið á mann. Köllum þetta auðgleymd huggulegheit sem er betri en maður heldur, en virkar best ef væntingar eru lágt stilltar og ef ekki miklu fjármagni er eytt í hana.


(6/10)