Zaillian endurgerir Timecrimes

Handritshöfundurinn Steve Zaillian hefur átt gott ár núna, en bæði Moneyball og The Girl with the Dragon Tattoo sem hann átti þátt í hafa verið að fá mjög góða dóma. Zaillian hefur einnig reynt sig í leikstjórastólnum, með misjöfnum árangri reyndar, og gerði síðast All the Kings Men árið 2006. Er hann var spurður í viðtali hvort hann hyggði á endurkomu í leikstjórastólinn, svaraði hann því játandi, og sagðist vera að undribúa endurgerð að spænsku vísindaskáldsögunni Timecrimes. Síðast heyrðum við af henni þegar David Cronenberg neitaði því að vera viðloðandi endurgerðina.

Los Cronocrimenes var frábær lítil tímaflakksmynd, sem að fjallaði um mann sem að slysast inn í atburðarrás þar sem hann upplifir sama hálftímann þrisvar sinnum. Atburðarrásin var skemmtilega ruglandi, sérstaklega vegna þess að tímaflakkið virtist „fyrirfram ákveðið“ – þ.e. þegar farið var aftur í tímann var engu breytt.Zaillian tjáði sig aðeins um hugmyndina:

„Við myndum flytja myndina til Bandaríkjanna… ég held að það yrði mjög gaman og ég myndi vilja gera þetta hratt og ódýrt því þetta er ein af þeim myndum sem þú getur gert þannig án þess að fórna neinu. Það eru fjórar persónur, tvær staðsetningar, og myndin gerist öll í rauntíma í um eina og hálfa klukkustund. Það væri mjög gaman, að reyna að gera eitthvað mjög hratt.

Ég held að myndin verði svipuð. Snilldin í sögunni felst í hugmyndinni, sem er að náungi upplifir sama hálftímann í lífi sínu þrisvar sinnum. Þetta er stór hugmynd og frábær, og ég mun ekki breyta neinu þar. Sögusviðið mun hinsvegar breytast. En stóra myndin og hugmyndin verður öll sú sama“

Það er gaman að heyra að Zaillian kunni að meta það sem var frábært við fyrri myndina, en satt að segja sannfærði hann mig ekki að þörf sé á endurgerð. Hann virtist bara ætla að gera það sama – nema á ensku. Ef af verður mæli ég með að þeir sem hafa gaman að myndum á borð við þessa drífi sig og sjái upprunalegu myndina fyrst.