Mánudagsbíó hefst aftur

Mánudagsbíó hefst aftur í kvöld eftir sumarfrí og það er kvikmyndin Coming to America með Eddie Murphy sem ríður á vaðið. Dagskrá vetrarins verður aðgengileg á undirsíðu Mánudagsbíó síðar. Hér má lesa fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

Ákveðið hefur verið að halda sýningum Mánudagsbíósins áfram í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands og hálfrar aldar afmæli Háskólabíós, en fjórar ólíkar stórmyndir verða sýndar nú á haustönn. Við hefjum leikinn með gamanmyndinni Coming to America frá árinu 1988 með grínistanum Eddie Murphy, sem sýnd verður
næstkomandi mánudag, 14. nóvember kl 20:00. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

Í tilefni afmælanna beggja eru valdar myndir endursýndar úr safni kvikmyndahússins en þrettán myndir voru sýndar nú á vorönn 2011 við góðar undirtektir háskólaborgara. Stóri salur bíósins bókstaflega troðfylltist nú á vorönn á sýningu dansmyndarinnar Dirty Dancing og stórmyndarinnar Top Gun, sem varð ekki síður fræg vegna tónlistarinnar í myndinni.

Kvikmyndirnar hafa margar ekki verið sýndar í bíói árum saman en kvikmyndasýningar í Háskólabíói hafa verið afar fjölbreyttar í gegn um tíðina. Við val endursýninga var leitast við að endurspegla þann fjölbreytileika þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Myndirnar verða sýndar í Stóra salnum á mánudögum kl 20:00, en áður fyrr var einmitt boðið upp á Mánudagsmyndir í bíóinu og því var sá dagur valinn. Haldnir verða reglulegir viðburðir á vegum kennara og nemenda Háskóla Íslands í tengslum við sýningarnar. Kvikmyndirnar sem sýndar verða eru í varðveislu Kvikmyndasafns Íslands og verða einungis sýndar einu sinni. Um er að ræða einstakt tækifæri til að sjá þessi klassísku verk í sinni upprunalegu mynd á stóru tjaldi.

Miðaverð verður á sérstökum afmæliskjörum, kr. 500 og eru allir hjartanlega velkomnir í Mánudagsbíóið. Miðar verða seldir við gamla inngang Háskólabíós.