Bill Murray er forseti Bandaríkjanna

Bill Murray liggur ekkert á að koma Ghostbusters 3 í gang – hann hefur úr nóg af áhugaverðum hlutverkum að velja. Hann mun birtast í næstu mynd Wes Anderson, Moonrise Kingdom (það er nánast skylda), hann á hlutverk í mynd Roman Coppola, Inside the Mind of Charles Swan III, sem verður með Charlie Sheen í aðalhlutverki og mun fjalla beint og óbeint um nýlega erfiðleika hans. Nú var einnig að birtast fyrsta myndin af honum í hlutverki Franklin Delano Roosevelt í mynd sem kallast Hyde Park on Hudson.

Myndin er byggð á samnefndu leikriti, er fjallar um heimsókn George VI og Elísabetar drottningar (sem sáust síðast í The Kings Speech) til Bandaríkjanna við brún seinni heimstyrjaldarinnar, fyrstu heimsókn ríkjandi Bretlandskonungs til Bandaríkjanna. Þau urðu fyrir ákveðnu menningarsjokki en böndin milli Englands og Bandaríkjanna styrktust mikið. Samkvæmt leikritinu áttu FDR og fjarskyld frænka hans, Daisy, á sama tíma í ólögmætu ástarsambandi. Olivia Williams leikur Eleanor Roosevelt, Laura Linney leikur Daisy, og Samuel West og Olivia Colman leika konungsfólkið.

Leikstjóri er Roger Michell (Notting Hill, Changing Lanes) og sagði hann í viðtali að aldrei hefði neinn annar komið til greina í hlutverk FDR en Murray. Hinsvegar hafi ekki verið eins auðvelt að sannfæra hann um að taka að sér hlutverkið. „Ég hefði ekki gert myndina án hans. En eftir árs bið fékk ég frábær smáskilaboð sem í stóð: „Yes, I’ll do it“. Spennandi verður að sjá afurðina.