Síðasta mynd River Phoenix væntanleg

George Sluizer leikstjóri myndarinnar Dark Blood, sem var í vinnslu þegar River Phoenix dó fyrir 18 árum, hefur tilkynnt að hann ætli sér að klára myndina og gefa hana út á næsta ári. Í myndinni lék Phoenix ungan einfara sem bjo á gömlu atómsprengju tilraunasvæði út í eyðimörk. Hannn hittir svo par frá Hollywood, þau Judy Davis og Jonathan Pryce, og málin flækjast. Myndin er sögð hafa verið nálægt því að ljúka tökum þegar harmleikurinn átti sér stað, en leikstjórinn segist munu fá hjálp frá bróður River, Joaquin Phoenix, til þess að tala yfir myndina, en raddir þeirra munu vera nokkuð líkar.

River Phoenix var skærasta táningastjarna síns tíma, og lék m.a. í myndunum Stand By Me eftir Rob Reiner, My Own Private Idaho eftir Gus Van Sant, og margir muna sennilega eftir honum í Indiana Jones and the Last Crusade, þar sem hann lék Indiana sjálfan á yngri árum. Phoenix lést úr of stórum skammti eiturlyfjakokteils seint að kvöldi fyrir utan náttklúbbinn Viper Room, sem var í eigu Johnny Depp. Dauði hans fékk mikla athygli, því ásamt því að vera rísandi stjarna hafði hann verið frægur fyrir hreina ímynd og góðan lífsstíl, var grænmetisæta og barðist fyrir réttindum dýra og verndun umhverfisins.

Sluzier segist hafa falið upptökurnar af Dark Blood af ótta við að þær yrðu eyðilagðar fyrst eftir dauða Phoenix. Hann hefur verið í sambandi við fjölskyldu hans í gegnum árin, og finnst nú greinilega rétti tíminn til að klára myndina. Hollenskt framleiðslufyrirtæki að nafni Eyeworks stendur að eftirvinnslu myndarinnar og mun ganga frá lagalegri hlið málsins, sem gæti leitt til þess að myndin muni skipta um nafn.

Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekkert af þessari mynd, og hef nú þar að auki ekki séð margar af myndum Rivers. En það gæti verið áhugavert að sjá 18 ára gamla mynd koma út í fyrsta skipti.