Pósturinn Páll fær kvikmynd

Í dag tilkynntu Classic Media og RGH Entertainment að sjálfur Pósturinn Páll myndi birtast á hvíta tjaldinu í fyrsta skiptið í kvikmyndinni Postman Pat: The Movie – You Know You’re the One. Tilkynningin kemur í tilefni 30 ára afmæli karaktersins en þeir John Cunliffe og Ivor Wood sköpuðu þættina árið 1981 fyrir sjónvarpsstöðina BBC1.

Ken Barrie, sem talaði upprunalega fyrir Pál, mun ekki talsetja hann í þetta skiptið; heldur mun breski leikarinn Stephen Mangan ljá honum rödd sína. Ásamt Mangan mun Rupert Grint (betur þekktur sem Ron Weasley), David Tennant og Jim Broadbent tala inn á myndina, en hlutverk þeirra eru að svo stöddu óþekkt.

Myndin mun fylgja Páli þar sem hann tekur þátt í hæfileikakeppni hjá þjóðþekktri sjónvarpsstöð en frægðin, peningarnir og glamúr-lífið hóta að rífa Pál frá þægilegu tilveru hans í Grænadal.

Henni verður leikstýrt af Mike Disa (Hoodwinked Too! Hood VS. Evil) og gerð eftir handriti skrifað af Spice World höfundinum Kim Fuller. Myndin fer í framleiðslu í næsta mánuði og er búist við því að hún fari í kvikmyndahús vorið 2013.