Kung Fu Panda 2 slær merkilegt met

Framhald hinnar geysivinsælu Kung Fu Panda hefur farið sigurför um allan heim, en nýlega var tilkynnt að myndin hefði náð heldur merkum áfanga. Kung Fu Panda 2 hefur þénað 650 milljón dollara um heim allan sem gerir hana að tekjuhæstu kvikmynd sem kona hefur leikstýrt.

Eins og gefur að skilja er leikstjóri myndarinnar, Jennifer Yuh Nelson, himinlifandi með árangurinn. „Þetta er mikill heiður og ég er afar þakklát að áhorfendur um allan heim taka svona vel á móti persónunum í Kung Fu Panda 2. Engin tölvugerð kvikmynd er gerð án risastórs hóps af fólki og ég vil þakka öllum þeim hæfileikaríku listamönnum sem unnu við gerð myndarinnar.“

Þetta er heldur betur góð byrjun á ferlinum en Kung Fu Panda 2 er fyrsta myndin í fullri lengd sem Nelson leikstýrir, en hún starfaði sem listamaður við fyrri myndina.