Kvikmyndahátíð í Kringlubíói hefst á morgun

Á morgun, föstudaginn 26. ágúst, hefst kvikmyndahátíð í Sambíóunum Kringlunni. Á boðstólum verða myndir sem margar hverjar hafa farið sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins og ber fyrst að telja Tree of Life sem vann Gullpálmann í Cannes. Þá verður sýnd dýrasta asíska mynd allra tíma – Red Cliff. Mel Gibson og Jodie Foster leiða saman hesta sína í Beaver og Sean Penn leikur á móti Naomi Watts í pólitísku spennumyndinni Fair Game.
Í tilkynningu frá SAM bíóunum segir að til að hver mynd fái þá athygli sem hún eigi skilið verði þær sýndar í hollum. Fyrst verði fjórar myndir settar af stað og svo komi tvær myndir viku síðar og aðrar tvær þar á eftir.
Eftirfarandi myndir verða sýndar á hátíðinni:
· Tree of Life – Terrence Malic – 26. ágúst

· Baaria – Guiseppe Tornatore – 26. ágúst

· Fair Game – Doug Liman – 26. ágúst

· Red Cliff – John Woo – 26. ágúst

· Hesher – Spencer Susser – 2. september

· Beaver – Jodie Foster – 2. september

· Rabbit Hole – John Cameron Mitchell – 9. september

· Casino Jack – George Hickenlooper – 9. september

Þorvaldur Árnason framkvæmdastjóri Samfilm segir í tilkynningunni: „Það er okkur sönn ánægja að fá að sýna svona margar stórkostlegar myndir í sama mánuðinum og við vonum að kvikmyndaáhugamenn fjölmenni.“
Alfreð Árnason framkvæmdastjóra Sambíóanna segir í tilkynningunni: „Sambíóin Kringunni er frábært bíó og ætti að fara vel um þá gesti sem þangað koma. Við bjóðum gesti upp á númeruð sæti og kort fyrir þá sem vilja sjá allar myndirnar. Þessi hátíð mun styrkja stöðu biósins í Kringlunni sem hefur upp á allt að bjóða listrænar myndir, óperu ásamt hinum „hefðbundnum“ Hollywood myndum“.

Kvikmyndadagar í Kringlubíói