Kidman, Cage, De Niro og Statham myndir verða frumsýndar í Toronto í september – Page Eight lokar

September er tími kvikmyndahátíða og á meðal þeirra stóru er hátíðin í Toronto í Kanada. Við höfum sagt frá því hér á síðunni hver opnunarmyndin verður, þ.e. heimildamyndin From the Sky Down, um írsku hljómsveitina U2, sem er fyrsta heimildarmyndin sem er opnunarmynd Toronto hátíðarinnar.
Myndin sem á hinsvegar að „loka“ hátíðinni verður njósnamyndin Page Eight með þeim Bill Nighy og Rachel Weisz í aðalhlutverkum.

Einnig leika í myndinni þau Ralph Fiennes, Michael Gambon og Judy Davis. Toronto hátíðin stendur frá 8. -18. september.

Aðrar myndir sem hafa bæst við á hátíðina að undanförnu eru spennutryllirinn Trespass með þeim Nicole Kidman og Nicolas Cage í aðalhlutverkum og dramamyndin Winnie með þeim Jennifer Hudson, Terrence Howard í aðalhlutverkum, en myndin fjallar um Winnie Mandela, fyrrum eiginkonu Suður-afrísku frelsishetjunnar Nelsons Mandela.

Einnig mun Gerard Butler mæta til leiks í trúboðasögunni Machine Gun Preacher, Jason Statham og Robert De Niro verða einnig á hátíðinni í myndinni Killer Elite og Maggie Gyllenhaal og Hugh Dancy leika í gamanmyndinni Hysteria, sem einnig verður frumsýnd á hátíðinni.