Ngoombujarra er látinn. Einn þekktasti leikari af ætt frumbyggja

Ástralski leikarinn David Ngoombujarra, sem var einn af best þekktu leikurum af ætt frumbyggja, og þrefaldur verðlaunahafi Australian Film Institute, er látinn.

Ngoombujarra, sem var 44 ára að aldri þegar hann lést, lék stór hlutverk í myndum eins og Australia, Ned Kelly og Rabbit-Proof Fence, en kom einnig fram í myndum eins og Crocodile Dundee og í sjónvarpsþáttunum Home and Away.

Leikarinn fannst látinn í almenningsgarði í Fremantle, hafnarbæ nálægt Perth, á sunnudaginn.
Lögreglan bíður nú eftir niðurstöðu eiturefnarannsóknar til að geta skorið úr um dánarorsök, en ekki er talið að lát hans hafi borið að með grunsamlegum hætti.

Hugh Jackman, sem vann með Ngoombujarra við gerð myndarinnar Australia, minntist leikarans á Twitter. „Mjög leiður að heyra af andláti David Ngoombujarra Starr. Frábær maður, leikari og vinur,“ sagði Jackman. „Hlátur hans, hlýja og manngæska munu lifa áfram með öllum sem kynntust honum.“

Ngoombujarra hét upprunalega David Bernard Starr og fæddist árið 1967. Hann fékk verðlaun frá Áströlsku kvikmyndaakademíunni, the Australian Film Institute, fyrir hlutverk sín í myndunum Blackfellas, Black and White og The Circuit.