Potter-maraþon: Order of the Phoenix

Ekki á morgun heldur hinn… Ekki gleyma því! Munið svo eftir búningunum ykkar, mætið södd og farið á klósettið á undan sýningu. Svo verðið þið að reyna á heppnina og taka þátt í leiknum okkar þar sem hægt er að vinna þrívíddargleraugu í Harry Potter-stíl. Það verður safngripur seinna meir. Getið stólað á það.

ÁR #5: HARRY POTTER AND THE ORDER OF THE PHOENIX

Þegar þessi mynd var á leiðinni í bíó á sínum tíma spurðu flestir sig: „hver er þessi David Yates??“ Myndin féll misvel í kramið hjá fólki (skil það ekki persónulega, hún er ein af mínum uppáhalds) en þegar Yates var svo búinn með sjöttu myndina tveimur árum seinna voru menn ekki farnir að hafa miklar áhyggjur af lokakaflanum. Í dag vita allir Potter-aðdáendur hver David Yates er, og í flestum tilfellum er talað vel um hann.

IMDB einkunn: 7,3
RottenTomatoes prósenta: 78%
Ebert: 2.5/4

Umfjöllun: Skrifuð af Jónasi Haukssyni þann 15. mars 2011.

Fyrir mig er mjög erfitt að vera fullkomlega hlutlaus við Order Of The Phoenix, enda er bókin byggð á myndinni ekki einungis uppáhalds bókin mín frá seríunni, heldur er hún með mínum uppáhalds bókum. Þó ég játa að myndin kramdi 750 blaðsíðna bók mjög vel þá eru nokkrir hlutir úr bókinni sem ég hefði viljað sjá á skjánum meira. Sumt hefur lítil áhrif á framhaldið, sumt hefur stórt. Samt sem áður hefur myndin bæst töluvert í áliti hjá mér eftir að hafa horft á hana aftur. Reyndar bara mjög mikið.

Best er samt að byrja á kostunum. Af öllum myndunum sem hafa komið út (þegar þetta er skrifað þá á einungis síðasta myndin eftir að koma) þá er flæðið langbest í þessari mynd. Hún er ekki bara með þeim stystu (eða sú stysta) heldur hefur fáa sem enga daufa punkta. Mest allt sem skiptu miklu máli úr bókinni kemst inn í myndina, hafði mjög vel heppnað montage, flest atriðin hafa hæfilega lengd og er climaxinn æðislega byggður upp. Ég held að orðið epic sé gott orð til að lýsa honum.

Rupert Grint og Daniel Radcliffe bættu sig báðir frá síðustu mynd, þó hæfileikar þeirra í þessari mynd séu ekki í sömu hæð. Ég gef samt leikstjóranum, David Yates, plús fyrir að vita frekar vel hversu vel Daniel getur leikið. Karakterinn hans, sem er auðvitað titilkarakterinn sjálfur, fer ekki í sömu reiðiköst og hann gerði í bókinni, en ég efast um að Daniel hefði getað leikið það nógu vel. Emma Watson, hinsvegar, er á svipuðum nótum og hún var í síðustu tveimur myndum.

Michael Gambon stendur sig mun betur núna heldur en hann gerði í síðustu mynd, Goblet of Fire, þrátt fyrir að koma mjög lítið fram. Ralph Fiennes stendur sig líka miklu betur en í síðustu mynd. Myndin hefur þrjá nýðliða og það er orðið langt síðan það hefur komið fyrir í HP-kvikmyndunum að leikarar hafa eignað sér karakterinn sinn svona mikið. Evanna Lynch leikur Luna Lovegood eins og hún komi beint út úr bókinni, bæði útlitslega séð og hegðun hennar („I hope there’s pudding“, klassískt) og Imelda Staunton er alveg jafn mikil tík og hún var í bókinni, og kemur algjörlega með raunhæfasta illmenni seríunnar. Helena Bonham Carter var líka góður senuþjófur.

Tónlistin, handritið (það eina sem var ekki skrifað af Steve Kloves, en Michael Goldenberg stóð sig vel, sérstaklega með flæðið) kvikmyndatakan og tæknibrellurnar eru eins gott og áður og blandast vel við myndina en myndin er í nokkrum tilvikum slapplega klippt. Útlit og andrúmsloftið halda áfram að dimma og sömuleiðis karakterarnir. Á þessu tímapunkti er unglingaþeman orðin drullugóð og er frekar erfitt að geta ekki tengt sig við aðstæðurnar sem koma fyrir karakterarna, hvort sem það er hrifning að hinu kyninu eða að hafa jafnmikla tík og Umbridge sem kennara.

Fyrir mig eru helstu kvartanirnar það sem var tekið úr bókinni. Ég veit vel að margt þurfti að taka út, en það eru nokkur atvik sem mér fannst ekki eiga við. Dæmi eru þróun/dýpkun aukakaraktera og má þar nefna helst Neville og Ginny, undirsöguþræðir eins og ákveðin minning, mörg æðislega samtöl og mörg smáatriði. Þetta er það sem lætur myndina ekki vera sú allra bestu, en hún er algjörlega með þeim bestu. Þannig að lág 9 er við hæfi. Það var að minnsta kosti ein framhaldsmynd frá 2007 sem ég var ánægður með og hefur Order Of The Phoenix bæst vel í áliti hjá mér síðan þá.

9/10

Þá spyr ég: Hvað finnst YKKUR um myndina og hvaða einkunn myndi hún fá?
T.V.