Potter-maraþon: Chamber of Secrets

Dagur 2, 5 dagar í stærsta og besta double-feature bíó sem sést hefur í íslensku kvikmyndahúsi (segir ekki mikið, en þið vitið). Maraþonið okkar heldur áfram (allir vera með!!). Ef einhver hérna tók mig til fyrirmyndar og horfði á Philosopher´s Stone í gær þá vita þeir sennilegast að barnalegasta myndin er hér með að baki… næstum því. Nú dembum við okkur í…

ÁR #2: HARRY POTTER AND THE CHAMBER OF SECRETS

Margir vilja meina að Chamber of Secrets sé álíka barnaleg í tón og andrúmslofti og forveri sinn en ég verð að vera nokkuð ósammála því (ég efa ekki að t.d. kóngulóarsenan hafi grætt fáeina krakka). Helstu sykruðu atriði hennar eiga sér stað alveg í lokin. Það sem einkennir þessa hvað mest er sú staðreynd að hún er lengsta myndin í seríunni.

IMDB einkunn: 7,1
RottenTomatoes prósenta: 83%
Ebert: 4/4 (!!!)

Umfjöllun: Skrifuð af Sæunni Gísladóttur þann 24. apríl 2011.

Harry Potter and the Chamber of Secrets er önnur myndin í Harry Potter seríunni og gerist hún á öðru ári Hermione, Harry og Ron í Hogwarts.

Eins og í fyrstu myndinni þar sem sami leikstjórinn Chris Columbus var að verki er myndin mjög ævintýraleg og frekar markaðsett fyrir yngri áhorfendur heldur en til að mynda Harry Potter 6 og 7.

Aðalsöguþráður myndarinnar er að the Chamber of Secrets eða leyniklefinn sem opnast á ný eftir 50 ár og krakkar leggjast í eins konar dá út af því. Harry og félagar vilja komast að því hvað er á seiði og vonandi bjarga deginum. Í þessari mynd fær maður líka að kynnast betur fjölskyldu Ron, Weasley fjölskyldunni, nýjum kennurum og hinum ógleymanlega álfi Dobby.

Harry Potter and the Chamber of Secrets er fínasta fjölskyldumynd og mjög gott framhald af fyrstu myndinni. Þegar maður horfir á þessa mynd aftur áttar maður sig á því að leikurunum hefur farið talsvert framm síðustu árin en þau standa sig nú samt ágætlega miðað við aldur og reynslu.

Það er ótrúlega gaman að horfa á þessar fyrri Harry Potter myndir aftur þar sem tónlistin og allt yfirbragð myndarinnar er svo ævintýralegt og þar sem versta skot Draco Malfoys á Harry Potter er að segja að Ginny sé kærastan hans!

8/10

Þá spyr ég: Hvað finnst YKKUR um myndina og hvaða einkunn myndi hún fá?

T.V.