Áhorf vikunnar (9.-15. maí)

Sá tími vikunnar er kominn og þess vegna er ágætt að rísa upp úr Eurovision-þynnkunni og rembast við það að muna hvað þið sáuð nýtt og skemmtilegt (eða drepleiðinlegt) í þessari viku. Röksemdir og einkunn er ekki skylda, en óneitanlega gerir það lesturinn skemmtilegri fyrir okkur hin þannig að þið skuluð endilega koma með ykkar fínustu míkró-gagnrýni.

Ég byrja þá víst, og nei, ég ætla ekki að telja Júróið með. Hef aldrei litið á þessa keppni sem mikið annað en glansandi landskynningu og afsökun til að staupa í sig lítrum af ljúffengu eitri. Mér finnst samt alltaf pínu fyndið hversu bjartsýn þjóð við erum þegar kemur að þessu, sama hversu gott eða slæmt lagið er sem við sendum (reyndar fannst mér okkar vera óvenjulega skítsæmilegt í ár). En hvað með það. Við kunnum að mynda stemmara í kringum hvað sem er ef gott „attitude“ er fyrir því. Það sást t.d. bara núna seinast á Drive Angry sýningunni sem við héldum fyrir helgi. Það er skrítið að sjá bíósal klappa undir lok myndar sem Nic Cage er í þar sem hann reynir nákvæmlega ekkert á sig. Mig hálfpartinn langar núna að sýna oftar lélegar myndir.

Mín vika leit einhvern veginn svona út:
(engin spes röð)

Bright Eyes – 8/10
Kíkti á nokkrar gamlar Shirley Temple myndir (jebb, fann þær í enn einum VHS kassanum) og mun eflaust horfa á mun fleiri þegar ég hef tíma. Hélt mikið upp á þær í æsku enda á ég erfitt með að muna eftir hæfileikaríkari og virkari barnastjörnu. Steppdansinn hjá henni er alltaf flottur og sá fjöldi mynda sem hún gerði á einungis æskuárunum sínum er nánast djókur. Bright Eyes fannst mér alltaf vera ein af betri myndum hennar. Hún er hjartnæm, vel leikin og hrikalega skemmtileg. Hefði samt frekar viljað sjá hana í hefðbundinni svart-hvítri mynd í staðinn fyrir „computer-colorized“ útgáfuna.
Horfði líka á Poor Little Rich Girl (7/10) og Heidi (8/10) sem hún lék í.

The Blair Witch Project (áhorf… 3?) – 6/10
Seinast þegar ég sá þessa var löngu áður en „found footage“ myndir komust í tísku. Blair Witch hefur flott set-up, trúverðugan leik og nokkrar öfugar gæsahúðarsenur. Hún festist samt í sömu endurtekningunum (með öðrum orðum: það gerist mjög lítið) og endirinn er langt frá því að vera fullnægjandi.

Drive Angry – 5/10
Ánægður með litla stemmarann en myndin er því miður bara gerð af röngum leikstjóra sem kann ekki að skjóta né klippa hasarsenur almennilega. Hún hafði sín móment og William Fichter var ekkert nema gull en það vantaði alveg „hlæðu-af-þér-rassinn-og-kýldu-svo-í-loftið“ fílinginn.

Water for Elephants – 6/10
Vel gerð og næstum því grípandi klisjusaga. Pattinson og Witherspoon höfðu litla sem enga kemistríu samt. Stór mínus fyrir ástarsögu.

Multiplicity – 7/10
Alltaf jafn skemmtileg þessi (líka gífurlega vanmetin). Michael Keaton er drullufyndinn.

Svo kláraði ég Boardwalk Empire og horfði á eitthvað af Community. Mmmm.

Næsti?