Dana Wynter er látin – fræg fyrir flótta undan fræbelgjum

Dana Wynter, sem skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún flúði undan Fræbelgja fólkinu árið 1956 í hinni sígildu Invasion of the Body Snatchers, er látin. Hún lést nú í vikunni í Suður Kaliforníu, 79 ára að aldri.
Banamein hennar var hjartabilun.
Wynter lék aðalhlutverkið í ýmsum sjónvarpsþáttum á sjöunda áratugnum, en var alltaf best þekkt fyrir leik sinn í hlutverki Becky Driscoll í mynd leikstjórans Don Siegel, The Invasion of the Body Snatchers, um þorpsbúa sem eru yfirteknir af tilfinningalausum verum ræktuðum úr einskonar fræbelgjum.

Wynter fæddist í Þýskalandi, en ólst upp í Englandi og lærði læknisfræði áður en hún sneri sér að leiklistinni. Meðal sjónvarpsþátta sem hún lék í voru þættirnir The Man Who Never Was, Wagon Train, Cannon og The Rockford Files.