Áhorf vikunnar (25. apr-1. maí)

Sá tími vikunnar er kominn. Þið kunnið þetta og sem fyrr vil ég ekki sjá neina feimni. Þetta fór hrikalega vel af stað í síðustu viku og voru mun fleiri sem kommentuðu en ég átti von á, sem er að sjálfsögðu magnað. Annars veit ég ekki með ykkur en þegar það byrjar að snjóa í upphafi maí-mánaðar þá dett ég úr sumargírnum og leggst í smá gláp. Hrikalega niðurdrepandi allt saman.

Í vikunni sem nú er að líða voru bíóferðir hjá mér ekki fleiri en tvær en letilegt gláp í heimabíóinu var talsvert meira. Ekkert til að vera stoltur af þó. Vona að þið stóðuð ykkur betur.

Munið: Nafn á mynd – einkunn – álit… Fréttamaður byrjar:

Thor (2. áhorf) – 8/10
Tussuskemmtileg og akkúrat rétta leiðin til að hefja bíósumar: Thor hefur hasarinn (slagsmálin við Hrímþursana = GEÐVEIKT!), húmorinn (guð já!), fína sögu og skemmtilega leikara. Ég fékk það sem ég kom til að sjá… í annað sinn þ.e.a.s.

Fast Five – 7/10
Eina myndin í Fjúríus-seríunni sem ég myndi segja að væri almennilega þess virði að sjá og borga fullt verð fyrir. Alveg hneykslaður yfir hversu skemmtileg þessi þvæla var.

Bridge to Terabithia – 6/10
Hafði aldrei séð þessa en bara heyrt góða hluti. Hún er öðruvísi, þroskuð og pínu áhrifarík í endann en svokölluðu fantasíusenurnar máttu vera vandaðri og skemmtilegri.

Pirates of the Caribbean: At World´s End (áhorf…??) – 8/10
Greip þessa á RÚV og fannst hún vera augljóslega kjörin upphitun fyrir fjórðu myndina (sem ég er samt ekkert spenntur fyrir). Að mínu mati er þetta langbesta Pirates-myndin. Hún er sú eina af þeim sem hefur almennilegan söguþráð í vinnslu allan tímann, og ég er ánægður með hvað „allir á móti öllum“ plottið er óútreiknanlegt og flókið. Mér finnst alltaf mjög kjarkað af Hollywood-mynd þegar sagan er svona drulluflókin. Gott set-up líka fyrir klikkaðan hasar í lokin. Hefði samt alveg viljað vera án „Gulliver“ senunnar. Hún er alltaf jafn leim.

The Salton Sea (3. áhorf) – 7/10
Mjög solid og aðdáunarverð mynd frá leikstjóra sem mun eflaust aldrei gera svoleiðis mynd aftur.

Philadelphia – 8/10
Þessa hafði ég ekki séð í ábyggilega 6-7 ár. Virkilega góð, og sýnir líka hversu magnaður leikari Tom Hanks getur verið þegar hann fær að sýna það almennilega.

Svo voru bara einhverjir Modern Family þættir. Horfði líka á slatta af Boardwalk Empire sem ég átti eftir að sjá. Engar lélegar myndir, sem betur fer.

Boltinn er ykkar megin. Er forvitinn að sjá hversu margir hérna nefna Thor.

Kv.
T.V.