Matt Damon talar um örlög – hafnaði Avatar

Stórleikarinn Matt Damon vinnur nú hörðum höndum að kynna nýjust mynd sína, spenutryllinn The Adjustment Bureau. Myndin fjallar um mann sem berst gegn örlögunum fyrir ástina, en í nýlegu viðtali við vefsíðuna WorstPreviews talaði leikarinn einmitt um örlagaríkar ákvarðanir í lífi sínu.

„Það var frábær ákvörðun hjá mér að hafna Avatar og leika frekar í Green Zone. Avatar gekk ekki svo vel en Green Zone mun hala inn peningum á DVD.“ sagði leikarinn og hló. „Ég vildi gera Avatar, ég hafði fundað með Jim [Cameron] og ég hlakkaði mikið til. En ég var að klára The Bourne Ultimatum sem olli því að ég gat ekki tekið Avatar að mér.“

Að svipuðu leyti stóð til að Damon færi með aðalhlutverkið í Rescue Dawn, sem Christian Bale hreppti að lokum. „Ég og leikstjórinn Werner Herzog töluðum um að ég myndi gera Rescue Dawn. Þetta var fyrir átta árum. Ég íhugaði það vandlega og var við það að samþykkja þegar ég ákvað að leika frekar í Stuck on You fyrir Farelly-bræður. Margir myndu segja það lélega ákvörðun en ég við tökur á myndinni kynntist ég konu minni. Fjórum börnum síðar er ég hæstánægður með ákvörðunina.“

The Adjustment Bureau verður frumsýnd hérlendis í 25. mars, en með önnur hlutverk í henni fara Emily Blunt og Terence Stamp.

– Bjarki Dagur