Arnold á leið í þýska herinn?

Fyrrum kvikmyndaleikarinn, ríkisstjórinn og vaxtarræktarmaðurinn og núverandi umhverfissinninn, Arnold Schwarzenegger er með handrit að bíómyndinni With Wings As Eagles á borðinu hjá sér og er að íhuga hvort hann eigi að taka að sér hlutverk í myndinni, en það myndi marka endurkomu Arnolds í bíómyndirnar.

Handritið er eftir Randall Wallace, sem skrifaði Braveheart, We Were Soldiers og The Man In The Iron Mask, en lengi hefur verið á dagskránni að gera bíómynd eftir því. Wallace er sjálfur mjög áfram um að tortímandinn taki að sér hlutverk Ostermann, þýsks hermanns í seinni heimsstyrjöldinni sem ákveður að hundsa fyrirmæli yfirmanna sinna og bjarga stríðsföngum. Hann segir að leikarinn fyrrverandi sé fullkominn í hlutverkið, og enn á góðum aldri, en hann er 63 ára gamall.

„Mikill hasar, slagsmál og skothríðar, eru ekkert fyrir mig lengur,“ segir Arnold sjálfur. „Í framtíðinni þá verð ég að velja hlutverk í takt við aldur minn. Clint Eastwood gerði það sama. Í With Wings As Eagles þá myndi ég leika eldri hermann, en í handritinu eru þó allskonar ævintýri og skemmtilegheit.“

Þetta er þó allt saman enn í skoðun hjá öllum aðilum, að því er Empire Online greinir frá.
Arnold segist vera að skoða tvö önnur handrit, en öll þau handrit sem hann er með í skoðun hníga í þá átt að ef af endurkomu í bíómyndirnar verður þá ætlar Arnold sér greinilega að feta nýjar brautir og láta geimverur eða hverskyns óþjóðalýð í friði – hér yrði um „venjulegri“ hlutverk að ræða.