HP 1-6: Uppröðun notenda

Fyrir nokkrum dögum síðan fór upp Harry Potter „getraun“ þar sem einum heppnum notanda gafst tækifæri á því að vinna sérstaka gjafakörfu sem inniheldur alls konar Potter-tengt dót. Viðkomandi aðili hefur fengið sendan póst og þegar hann sér þessa frétt mætti hann gjarnan maila á okkur tilbaka. Leikurinn gekk annars út á það að raða myndunum sex upp eftir gæðum, þar sem sú besta var valin efst. Umræðusvæðið fylltist kommentum og pósthólfið mitt líka og margir höfðu fullt af skemmtilegum hlutum að segja um hverja mynd. Allt í allt voru 378 manns sem tóku þátt, en þó voru rétt svo 66 sem kommentuðu á vefsvæðið sjálft. Reyndar voru nokkrir sem sendu á bæði.

Ég tók allavega saman listana og raðaði upp nýjum sem byggist á áliti meirihlutans og því sem þeir völdu. Svo fylgja nokkur kvót með svo fólk fái einhverja tilfinningu fyrir rökstuðningnum á bakvið valið.

Hérna er semsagt listinn sem sýnir hvað Kvikmyndir.is notendum finnst um Harry Potter-myndirnar:

1. PRISONER OF AZKABAN

Þarna þurfti ekki mikið að telja. Þessi var efst á blaði hjá langflestum og var langt fyrir ofan hinar tvær sem fengu líka slatta af atkvæðum. Hérna er annars brot af því sem notendur sögðu um þriðju myndina:

„Fyrsta myndin sem var svolítið myrk og ekki eins barnaleg. Vel leikstýrð, mjög flott stíliseruð og skemmtileg. Með þessari mynd varð ljóst að bókaserían væri efni í töff myndir, líka fyrsta Potter myndin sem ég fílaði.“ – Andri Þór Jóhansson

„Harry, Ron og Hermione kynnast öll allt öðruvísi þau eru búin að þroskast mikið síðan úr fyrstu 2 árunum í skólanum. Sirius Black er meðal allra uppáhalds persónum mínum aðallega vegna þess hversu hjartgóður hann er og leikarinn, Gary Oldman, er snillingur að leika hann. Í þessarri mynd eru krakkarnir farnir að skilja aðeins hversu alvarlegt Voldemort-málið er og myndirnar verða aðeins dekkri sem að ég kann að meta. Remus Lupin er skemmtileg sögupersóna og er Harry mikil hjálp því að ef hann hefði ekki lært ‘expecto patronus’ væri hann ekki með sál :/ Það var líka skemmtilegt að fá aðeins að vita meira um fortíðina hjá pabba Harry og vinum hans og þá skilur hann loksins fjandskap Snape. Ræningjakortið fannst mér líka skemmtilegt og vel gert.“ – SólveigMag

„Í fyrsta lagi fannst mér þetta fyrsta myndin sem Daniel Radcliffe kemst almennilega á gott flug sem aðalleikari. Svo sýnir þessi mynd hvað Harry veit í raun rosalega lítið um sjálfan sig og fjölskyldu sína og það fer fram rosalega mikil persónuþroskun. Svo fannst mér Emma Watson blómstra mjög mikið ásamt karakternum, Hermione. Svo náttúrulega var Gary Oldman rosalega ofboðslega flottur, algjörlega átti hlutverkið sem Sirius Black. Samt svolítið af smáatriðum sem skilja eftir sig holur í sögunni.“ – Helga Sóley Ísleifsdóttir

„Þarna eru Harry, Ron og Hermione orðin miklu nánari (leikararnir eru búin að kynnast betur og þekkjast) og leikararnir miklu betri, Harry er líka sætastur þar 😀 Harry fær líka loksins einhvern sem er honum eins og faðir en ekki bara prumpuskítur eins og Vernon. Sirius er bara snillingur og Gary Oldman nær honum fullkomlega.“ – Kakobolli

2. HALF-BLOOD PRINCE

Þessi og myndin fyrir neðan voru frekar jafnar, og það munaði bara einhverjum 6 atkvæðum.

„Í þessarri mynd er mikið að gerast finnst mér. Allt orðið dekkra og alvarlegra sem mér finnst skemmtilegt, þetta eru ekki lengur svona fjölskyldu-ævintýramynd heldur er þetta orðinn risastór flókinn vefur af atburðum sem maður verður að leggja sig fram til þess að halda alveg í við söguþráðinn. Frábærlega leikið af öllum leikurunum líka.“ – SólveigMag

3. PHILOSOPHER’S STONE

4. ORDER OF THE PHOENIX

5. GOBLET OF FIRE

6. CHAMBER OF SECRETS

Þetta kemur eflaust engum á óvart. Hér sjáið þið hvers vegna:

„Hún var bara einfaldlega leiðinleg. Karakterarnir voru óspennandi og “fígúrurnar” misheppnaðar – slangan var leiðinleg, köngulærnar voru leiðinlegar, og Dobby var svo leiðinlegur að mig langaði til að æla! Eins og fyrsta myndin náði að skapa sannfærandi ævintýraheim var þessi engan veginn að ná að fylgja því eftir. Of dimm til að höfða til barnanna (sem elskuðu fyrstu myndina) en of barnaleg og kjánaleg til að færa seríuna á hærra plan.“ – Helga (og Hildur) ísleifsdóttir

„Þó sagan var góð og tæknin fín þá voru leikararnir ekki alveg að plumma sig sem pirraði mig þá og gerir það smá enn. Var þó afar lík fyrstu myndinni og ekki eins myrk og hinar sem á eftir komu. En samt góð til áhorfs.“ – Sigga Clausen

„eftir hversu frábær mér þótti mynd númer 1 þá var 2 svolítið „let-down“ söguþráður þunnur og raunverulega ekkert mikilvægt í henni uppá framhaldið í myndunum nema kannski Fönixinn sem kom rétt í endann. En eins og ég segji mér finnst hún alls ekki leiðinleg, hef gaman af öllum þessum myndum en af þessari skemmtilegu sögu finnst mér þetta slakasti kaflinn.“ – Arnar93

„Þessi er að mínu mati versta Harry Potter myndin, eða kannski frekar sísta myndin. Hún er alls ekki léleg en mér finnst einnig 2. bókin vera síst. Þetta er eina myndin sem að ég nenni eiginlega aldrei að horfa á. Mér finnst bara sagan frekar ómerkileg og leiðinleg. Ég verð samt að segja að 6. myndin (eða bókin) gerði þessa mynd aðeins betri, þ.e.a.s. að dagbókin var helkross.“ – Tómas Helgi

Sé ykkur annars í bíó.

T.V.