Þjóðleikhúsið breytist í bíó á opnunarhátíð RIFF

Það er greinilegt að RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík færist nær, því fréttirnar koma nú í stríðum straumum frá stjórnendum hátíðarinnar. Hátíðin verður sett eftir tvær vikur, eða fimmtudagskvöldið 23. september, og fer setningarathöfnin fram í Þjóðleikhúsinu. Á meðal dagskrárliða við setninguna verða Ari Eldjárn grínisti, Jón Gnarr grínisti og borgarstjóri, og auk þess verður sýnd opnunarmyndin Cyrus, en það verður í fyrsta skipti í langan tíma sem kvikmynd er sýnd í leikhúsinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá RIFF.

„Einnig verður vel valinn einstaklingur fenginn til þess að halda hina árlegu „hátíðargusu‟, en það er ræða þar sem aðili tengdur kvikmyndabransanum hellir úr skálum reiði sinnar, og kvartar yfir því hversu lág framlög hins opinbera til kvikmyndagerðar á Íslandi eru,“ segir í tilkynningu RIFF.

Um opnunarmyndina Cyrus segir eftirfarandi í tilkynningunni: „Opnunarmyndin Cyrus er annars eftir þá bræður Mark og Jay Duplass og skartar stórleikurunum John C.
Reilly (Boogie Nights, Magnolia, The Aviator), Jonah Hill (The 40-Year-Old Virgin, Evan Almighty, Superbad) og Marisu Tomei (My Cousin Vinny, The Wrestler, Alfie) í aðalhlutverkunum. Myndin segir frá John sem stendur á ákveðnum tímamótum í lífi sínu þegar fyrrverandi eiginkona hans er á leið í nýtt hjónaband. Hann kynnist þá annarri konu, sem við fyrstu sýn virðist vera kona drauma hans. Fljótlega kemur hins vegar í ljós að annar karlmaður er í lífi hennar – nefnilega sonur hennar. Um er að ræða mynd sem er bæði fyndin og sorgleg – saga frá Los Angeles nútímans. Myndin hefur hlotið afar góða dóma, og sem dæmi má nefna að samkvæmt heimasíðunni Rotten Tomatos hafa 80% gagnrýnanda gefið henni jákvæða dóma.“

Að sýningu myndarinnar lokinni verður efnt til opnunarhófs í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem setningu sjöundu Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík verður fagnað fram eftir nóttu.