Affleck aftur ákærður

Kona sem vann að heimildarmynd Casey Affleck um Joaquin Phoenix hefur nú kært leikarann fyrir kynferðisáreitni, en eins og við sögðum frá hér á síðunni nýlega hefur önnur kona þegar lagt fram kæru á hendur Affleck, sem hann svo mótmælti harðlega og ætlaði að kæra viðkomandi til baka.
Konan sem nú leggur fram kæru, Magdalena Gorka, segir að Affleck hafi skriðið fullur upp í rúm til hennar meðan hún svaf og haft þar frammi kynferðislega tilburði. Einnig segir Gorka að Affleck hafi neitað að greiða henni laun eftir að hún hætti að vinna að myndinni, eftir atvikið.

Talsmaður Affleck sagði að tilkynningu væri að vænta frá framleiðendum.
Samkvæmt kæru Gorka þá háttaði málum þannig að þegar tökum á myndinni „I’m Still Here: The Lost Year of Joaquin Phoenix“ hófust í New York í desember sl. Þá var hún eina konan í starfsliðinu. Phoenix og Affleck, sem kvæntur systur Phoenix,ákváðu að þeir sem unnu að myndinni myndu dvelja heima hjá Phoenix í stað þess að dvelja á hóteli. Phoenix á að hafa sagt Gorka að hún gæti sofið í svefnherberginu hans og hann myndi sofa frammi á sófanum.
„Um miðja nótt vaknaði Gorka og fann að Affleck lá í rúminu við hlið hennar,“ segir í málsskjölunum. “Án þess að vita af Gorka, kom Affleck inn í herbergið á meðan hún lá þar sofandi og skreið upp í rúm. Þegar hún vaknaði þá var Affleck búinn að hrjúfra sig upp að henni í rúminu aðeins klæddur í nærbuxur og stuttermabol. Hann hafði höndina yfir henni og var að þreifa á baki hennar. Andlit hans var aðeins fáeinum sentimetrum frá hennar andliti, og út úr honum var áfengislykt.“
Gorka segist hafa fengið sjokk þar sem hún vissi ekki hve lengi Affleck hafði legið þarna og hvar hann hefði mögulega snert sig. Hún sagðist hafa sagt honum að fara úr rúminu þegar í stað. Affleck hafi svarað, „Afhverju?“ og Gorka sagði: „Af því að þú ert giftur og þú ert yfirmaður minn.“ Affleck spurði hvort hún væri viss, og hún sagði svo vera og krafðist þess að hann yfirgæfi herbergið. Hann fór og skellti reiður á eftir sér hurðinni.

Eftir þetta hætti Gorka í þessu starfi og fór til New York, án þess að finna sér nýja vinnu. Hún sneri því aftur í vinnuna hjá Affleck en þar hélt Affleck áfram að koma illa fram við hana, og að lokum neitaði hann að borga henni pening sem hann hafði lofað henni. Nú hætti Gorka aftur og kærði leikarann og munu þau væntanlega sjást næst í dómssal þegar réttað verður í málinu.