Inception efst þriðju helgina í röð

Inception heldur áfram að ríkja í miðasölunni í Bandaríkjunum, þriðju helgina í röð. Nú voru það myndirnar Dinner for Schmucks, Cats & Dogs: The Revenge of Kitty Galore og Charlie St. Cloud sem þurftu allar að lúta í gras fyrir draumatryllinum.

Paul Dergarabedian, sérfræðingur í aðsóknartölum í Hollywood segir að Inception hafi smogið inn í tíðarandann og um hana séu allir að tala og allir verði því að sjá hana.

Gamanmyndin Dinner for Schmucks með Steve Carrel og Paul Rudd var ekki langt á eftir Inception um helgina, og þénaði 23,3 milljónir Bandaríkjadala á meðan þrívíddarmyndin Cats & Dogs: The Revenge of Kitty Galore, tók inn mun minna af peningum í kassann, eða aðeins 12,5 milljónir og lenti í 5 sæti um helgina. Charlie St. Cloud, drama með kyntákninu Zac Efron, fór beint í 6. sætið með 12,1 milljón dala í aðgangseyri.

Salt, „james bond mynd“ Angelinu Jolie lenti í þriðja sætinu um helgina með 19,2 milljónir á sinni annarri viku á lista og er þar með komin með 70,8 milljónir dala í kassann.