Redford og Estevez á TIFF

Á meðal helstu atriða á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada í ár verða heimsfrumsýningar á myndum tveggja heimsþekktra kvikmyndaleikara og leikstjóra, þeirra Roberts Redfords og Emilio Estevez.

Hátíðin í ár er sú 35. í röðinni og verða sýndar alls 290 myndir á hátíðinni, sem er reyndar nokkru minna en í venjulegu ári þegar í kringum 350 myndir eru sýndar, að sögn stjórnanda hátíðarinnar Piers Handling, í samtali við Reuters fréttastofuna. Í fyrra voru 312 myndir sýndar en það ár var iðnaðurinn í kreppu eins og flest annað í þessum heimi.

Á hátíðinni verða heimsfrumsýndar 25 myndir en vonast er til að kreppan í kvikmyndaiðnaðinum sé að klárast og menn sjái fleiri samninga um dreifingu á kvikmyndum en var á síðasta ári líta dagsins ljós.

Kvikmyndahátíðin í Toronto, eða TIFF eins og hún er skammstöfuð, er nú flokkuð í mikilvægi með hátíðum eins og Cannes og Sundance, og er mikilvægur viðkomustaður alþjóðlegra mynda sem eru að reyna að komast á markað í Norður Ameríku. Hátíðin er einnig þekkt fyrir að kynna til sögunnar myndir sem sem eiga eftir að ná langt á Óskarsverðlaunahátíðinni. Dæmi um slíkar myndir eru Slumdog Millionaire, The Hurt Locker og Crash.

Á meðal mynda á hátíðinni í ár eru myndir með Nicole Kidman, Ewan McGregor, Paul Giamatti, Robert DeNiro og fleirum í aðalhlutverkum. Hátíðin stendur í 11 daga og byrjar 9. september nk.

Hátíðarfrumsýningar verða á myndunum The Conspirator eftir Robert Redford,um morðið á Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta, og mynd Emilieo Estevez, The Way, með föður hans Martin Sheen í aðalhlutverki.

Á hátíðina koma að jafnaði meira en 1.000 blaðamenn og fjöldi aðila úr kvikmyndaiðnaðinum, stórstjörnur úr hópi leikara og leikstjóra.