Comic-Con – Dagbók: Föstudagur


Ég (Erlingur) var nánast eingöngu umkringdur Scott Pilgrim í allan dag. Kolbrún var viðstödd kynningar á Drive Angry 3D, Skyline, Super, Don’t Be Afraid of the Dark, The Other Guys, Green Hornet, Priest 3D, 30 Days of Night: Dark Days og Ironclad og er svo þreytt eftir þetta að ég sé um dagbókarfærslu dagsins á Kvikmyndir.is. Í september-blaðinu verður stór grein um upplifunina af hátíðinni, auk þess sem sér-fréttir, viðtöl og viðtalsbútar munu birtast bæði hér á vefnum og í blaðinu, líklega langt fram á haust!

En að Scott Pilgrim vs. the World. Dagurinn fór að miklum hluta í svokölluð „Roundtable Interviews“, eða hringborðsviðtöl, þar sem við vorum nokkrir blaðamenn sem fengum að spyrja nánast alla helstu leikara myndarinnar, auk leikstjórans Edgar Wright, í þaula. Þau mættu þrjú til fjögur í einu að borðinu og létu gamminn geisa við 10 manna hringborð þangað til stjórnendur fundarins drógu þau burt. Það sem vakti athygli mína var að allur leikhópurinn virðist mjög samrýmdur, enda voru mörg þeirra saman á tökustað í Toronto í heila sex mánuði. Þau fífluðust og grínuðust hvert í öðru í viðtölunum, sem voru stórskemmtileg. Viðtal við Edgar og Michael Cera mun birtast í lok næstu viku í ágústblaði Mynda mánaðarins, en hér á vefnum verða þrjú önnur viðtöl birt eitt af öðru þar til myndin kemur út í lok ágúst.

Það sem sló mig persónulega hversu mikið er til af lélegum blaðamönnum sem komast ótrúlega nálægt stjörnunum. Á mínu borði, þar sem sátu 7 blaðamenn (borðin voru tvö samanlagt með um 13-14 blaðamönnum) voru tveir sem voru svo snortin af nærveru leikaranna að þeir komu varla upp orði og ein blaðakona um fimmtugt sem gerði ekkert annað en að vera með myndavél í fésinu á þeim allt viðtalið að taka myndir af þeim, öllum til mikils ama. Með flassið á. Það sem ég dáðist að við leikarana var hversu lítið þau létu þetta angra sig og voru tilbúin til að vera skemmtileg og aðgengileg, þrátt fyrir að fólk í mikilli nálægð við það væri að haga sér eins og þau væru geimverur.

Svo, eftir þessi viðtöl, fengum við að sjá sjálfa myndina. Ég mun ekki spoila neinu hér og nú, nema þá helst því að þeir sem hafa beðið spenntir eftir henni mega, ef eitthvað er, tjúnna spenninginn aðeins meira upp. Treystið okkur, við verðum með fyrstu gagnrýnina um myndina af öllum miðlum á Íslandi, en hún kemur bráðlega.

Eftir myndina skokkaði ég yfir á kynningu á myndinni Ironclad, sem skartar Paul Giamatti, James Purefoy og Kate Mara í aðahlutverkum, og segir frá blóðugri orrustu sem átti sér stað á Englandi á þrettándu öld. Þar var sýnt 11 mínútna myndbrot úr orrustunni (sem ég missti af, en Kolbrún fullvissaði mig um að það hefði verið mjög flott, afar stílfært og blóðugt), en Paul Giamatti, Vladimir Kulich leikari og Rick Benattar framleiðandi áttu svo mjög gott spjall við þá sem á staðnum voru og náðu að kveikja raunverulegan áhuga fyrir efni sem hefur oft átt erfitt uppdráttar: miðaldastríðsmyndum sem gerast í Englandi. Myndin er ekki komin með dreifingaraðila í Bandaríkjunum, en talið er að það muni fljótt breytast í Toronto í haust, þar sem fullkláruð myndin verður frumsýnd í heild sinni, sé eitthvað að marka þetta myndbrot.

Á morgun verða svo kynningar á Let Me In, Harry Potter and the Deathly Hallows, Green Lantern, Sucker Punch, Resident Evil: Afterlife, Paul, Cowboys & Aliens, Thor og Captain America, auk þess sem annað okkar mun kíkja á nokkrar sjónvarpsþáttakynningar. Það er nóg að gera í San Diego.

-Erlingur Grétar Einarsson