Twilight í framför og fleira misgott

Í glænýjum dómi um The Twilight Saga: Eclipse, sem frumsýnd var á Íslandi í gærkvöldi, segir kvikmyndagagnrýnandi kvikmyndir.is að hér sé um talsverða framför að ræða frá fyrri myndum, númer eitt og tvö, og gefur myndinni því einar sex stjörnur af tíu mögulegum. Tómas segir meðal annars: „Eclipse á í rauninni ekki skilið að fá hærri einkunn heldur en fimmu en ég hef kosið að hækka hana rétt svo til að undirstrika það að hér sé um talsverð framför að ræða, alveg eins og New Moon var örlítið skárri en Twilight nema hér er munurinn aðeins meira áberandi. Ég get ekki sagt að þetta sé góð mynd en hún er án efa vandaðri heldur en hinar, sem að sjálfsögðu gefur líka til kynna að hún er ekki eins hallærisleg.“

En fleiri dómar hafa verið að koma inn á kvikmyndir.is í vikunni. Heimir Bjarnason gefur The Haunting in Connecticut 4 stjörnur og segir meðal annars: „Myndin fellur í sömu hrúgu og flestar hryllingsmyndir og er mjög auðgleymd. Hún skilur ekkert eftir sig en ég bjóst reyndar ekki við neinu öðru þegar ég byrjaði að horfa á hana og vissi alveg hvað ég væri að fara að sjá.“

Sæunn Gísladóttir gefur nýju Toy Story myndinni níu stjörnur, en myndin hefur fengið einróma lof gagnrýnenda: „Toy Story 3 er nýjasta pixar myndin og fullkomin endir á Toy Story trílógíunni. Þegar ég heyrði fyrst um þessa mynd hélt ég að þetta væri bara peningaplott eins og framhaldsmyndir eru svo oft, en ég hafði virkilega rangt fyrir mér. Toy Story 3 er frábær mynd fyrir unga sem aldna og held ég að allir muni hafa gaman af henni.“

Ólafur Þór Jónsson lætur síðan myndina The Killers fá það óþvegið og gefur myndinni heilar tvær stjörnur af tíu. „Hvar á maður að byrja umfjöllun á svona mynd?. Fékk akkurat það sem ég vildi ekki sjá.. Myndin byrjaði ja svona ágætlega, þau kynnast og klisjan ætlar að drepa mann. En samt komu á þessum tíma örfá atriði sem ég gat virkilega hlegið að. en þegar liðin var u.þ.b. klukkustund af myndinni og enn ekkert farið að gerast var ég virkilega farin að ókyrrast. Og gosglasið mitt í hléinu var í henglum því mér var virkilega farið að leiðast.“

Sindri Már Stefánsson er síðan, að lokum, nokkuð ánægður með hasarmyndina The A-Team, sem uppfyllti væntingar hans: „Fór inní kvikmyndahús kl 20:00 í gærkvöldi og bjóst við miklu actioni og látum,
og það var nákvæmlega það sem ég fékk + meira , og þá er ég að tala um húmorin sem fylgdi með!“