Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

I Love You, Man 2009

Frumsýnd: 8. apríl 2009

Are You Man Enough To Say It?

105 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 83% Critics
The Movies database einkunn 70
/100

I Love You, Man segir frá Peter (Paul Rudd), ungum manni sem er nýbúinn að trúlofast Zooey (Rashida Jones), kærustu sinni til langs tíma. Þegar undirbúningurinn fyrir brúðkaupið fer af stað kemst Peter þó að því, sér til mikils hryllings, að hann á engan karlvin sem getur orðið svaramaður hans. Hann neyðist því til þess að fara á karl-stefnumót til... Lesa meira

I Love You, Man segir frá Peter (Paul Rudd), ungum manni sem er nýbúinn að trúlofast Zooey (Rashida Jones), kærustu sinni til langs tíma. Þegar undirbúningurinn fyrir brúðkaupið fer af stað kemst Peter þó að því, sér til mikils hryllings, að hann á engan karlvin sem getur orðið svaramaður hans. Hann neyðist því til þess að fara á karl-stefnumót til að finna hentugan besta vin, en eftir nokkurt streð hittir hann loksins Sydney (Jason Segel) og tengjast þeir sterkum böndum. En því nánari sem þeir verða, setur það meiri pressu á samband hans við unnustu sína, og lendir hann brátt í þeirri aðstöðu að velja á milli besta vinarins og unnustunnar.... minna

Aðalleikarar

Rétta meðalið
Rétta meðalið við öllu krepputalinu. John Hamburg leikstýrði gamanmyndinni Along Came Polly fyrir fimm árum og snýr nú aftur með gamanmynd í svipuðum dúr, I Love You, Man, en að þessu sinni fara þeir Paul Rudd og Jason Segel með aðahlutverkin. Segel er kunnastur fyrir að leika hinn geðþekka Marshall Eriksen í gamanþáttunum How I Met Your Mother en leikur hér allt annars konar persónu, kæruleysislegan og léttgeggjaðan náunga, Sydney Fife. Paul Rudd leikur Peter Klaven, sem er á leið í hnapphelduna en kemst að því að hann á engan góðan vin og einsetur sér að finna frábæran svaramann áður en brúðkaupið fer fram. Eftir mikla leit kynnist hann Sydney Fife, sem setur líf hans á annan endann.

I Love You, Man er léttgeggjuð, eins og Sydney Fife, og brandararnir fjölmargir og flestir hitta vel í mark, þó myndin sé auðvitað ekki laus við smá væmni, en slíkt virðist einkenna flestar gamanmyndir frá Hollywood. Paul Rudd er að öðrum ólöstuðum stjarna myndarinnar. Rudd hefur leikið í fjölmörgum eftirminnilegum myndum í gegnum árin, meðal annars Clueless, The Object of My Affection og Anchorman og hefur undanfarin ár komið fram í ýmsum vinsælum gamanmyndum. Hann hefur klassískan bíómyndasjarma og er frábær gamanleikari, án þess þó að detta í þá gryfju að ofleika. Þá má ekki gleyma Jon Favreau sem er í stórskemmtilegu hlutverki í myndinni og ferst honum það vel úr hendi eins og flest annað í gegnum tíðina.

I Love You, Man er formúlugamanmynd en samt sem áður vel yfir meðallagi sem slík, bráðfyndin og í raun einmitt rétta meðalið við öllu krepputalinu um þessar mundir.

María Margrét Jóhannsdóttir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gott grín í Apatow-stíl
I Love You, Man er ekkert alltof ólík rómantískum gamanmyndum að því leyti að hún fer nánast algjörlega eftir formúlunni... nema hún gerir það viljandi og tekur vináttu tveggja karla í staðin og spinnur hana í gegnum helstu klisjurnar. Fólk hittist, hrífst af hvort öðru (þannig séð), eyðir notalegum stundum saman, rífst, sættist, og verða síðan nánari en nokkru sinni fyrr undir lokin. Ég veit ekki um ykkur, en mér fannst þessi mynd takast það helvíti vel að koma með þessa útúrsnúninga á senur sem við höfum séð tíu þúsund sinnum áður milli karls og konu. Svo er það heldur ekkert verra að myndin heldur manni glottandi eins og fábjáni út alla lengdina.

Það sem ég fíla mest við I Love You, Man eru leikararnir. Ekki bara helstu tvo í aðalhlutverkunum, heldur allan hópinn og slær nánast enginn feilnótu hvað húmor varðar. Þeir Paul Rudd og Jason Segel eru náttúrulega algjörir snillingar á skjánum og mynda alveg ómótstæðilega "bro-mance" kemistríu. Rudd hefur algjörlega sýnt hvað í honum býr undanfarið og hefur reynst jafnvel fjölbreyttari en nokkur maður gat búist við. Á cirka ári hefur hann leikið freðinn brimbrettagaur (Forgetting Sarah Marshall), kaldhæðinn skíthæl (Role Models) og núna óörugga ljúflinginn sem myndi ekki gera flugu mein. Það er eitthvað við þennan Rudd sem gerir hann alltaf jafn skemmtilegan. Hann hefur kómísku tímasetninguna alveg á hreinu og tekst alltaf að vera kjánalegur án þess að vera tilgerðarlegur. Hann heldur líka ákveðnum ferskleika sem t.d. margir grínistar missa eftir ákveðinn tíma. Til dæmis er ég farinn að missa töluvert álit á Seth Rogen, sem oftar en ekki lætur alltaf eins.

Segel er mjög svipaður Rudd. Hann er hress og kann að flytja góða brandara. Hann kann m.a.s. að flytja brandara sem eru ekkert alltof fyndnir. Ég hefði reyndar viljað sjá hann tækla handritið líka, enda skrifaði hann Sarah Marshall, sem að mínu mati var ein besta gamanmynd síðasta árs. Það kemur annars á óvart hversu góðir allir eru í aukahlutverkunum. Hinn SJÓÐheita Rashida Jones gerir m.a. miklu meira með hlutverk dæmigerðu kærustunnar en maður sér vanalega. Hún er í raun ákaflega lífleg og skemmtileg persóna. Meira að segja voru Jaime Pressly og Jon Favreau fáránlega skondin sem hjón sem láta Leo og Kate úr Revolutionary Road líta út fyrir að vera kammó par. Lou Ferrigno (gamli Hulk), Thomas Lennon ("You're a whore, Peter!") og Andy Samberg (sem lék bróður Rudds) stálu einnig hiklaust atriðum sínum.

Ég tek það þó fram að I Love You, Man þótti mér ekki sprenghlægileg. Það voru reyndar nokkur slík atriði, en mestmegnis var myndin allan tímann broslega fyndin og það er talsvert meira en ég get sagt um síðustu mynd leikstjórans John Hamburg, Along Came Polly. Gallinn við handritið er að alltof margir djókar endurtaka sig og vandræðalegu frasarnir hjá Rudd voru stundum óbærilegir til áhorfs, sem var auðvitað ætlunin, en djöfull tókst mönnum að mjólka það.

Fyrir utan það tókst mér að skemmta mér ljómandi vel á þessari mynd. Hún gerir líka ýmislegt meira en að fá mann til að hlæja. Hún spilar með kunnuglegar hugmyndir og hefur einnig þrælfínar persónur sem manni líkar óvenju mikið við, sama hvernig þær eru að eðlisfari. Ég mæli annars klárlega með þessari mynd og tel mig alveg líklegan til að vilja kíkja á hana oftar.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn