Assault on Precinct 13 er mynd sem maður þarf bara að hafa gaman af, þrátt fyrir götóttan söguþráð eða þunnar persónur. Myndin er í stuttu máli bara nett afþreying, og ef maður kemst í þessa spennuvímu meðan henni stendur þarf alls ekki á öðru að halda.
Hún er hröð og keyrslan þétt. Svona u.þ.b. hálftíma inn í myndina skiptir hún yfir í overdrive-gírinn og hægir mjög sjaldan á sér. Um er að ræða ekta testósterónbíó sem inniheldur bæði dúndurskemmtilega skotbardaga og hressilegan húmor á milli sena. Líka er sérstök ástæða til að hrósa kvikmyndatökunni, en þrátt fyrir óbærilegan hristing einstaka sinnum nær hún að standa fyrir sínu ásamt flottum stíl.
Leikararnir standa sig bærilega. Ethan Hawke er reyndar ekki að gera nýja hluti hérna - reyndar minnir persóna hans örlítið á aðeins meira Die Hard-útgáfu af þeirri sem hann lék í Training Day - en hann er fínn þrátt fyrir það. Laurence Fishburne hefur heldur ekki verið svona svalur síðan hann steig fyrst fram í Matrix. John Leguizamo og Ja Rule eru síðan viðstaddir til að sjá um létta brandara, en persónulega finnst mér myndin hefði vel getað bjargað sér án hins síðarnefnda og fannst mér taktar hans oft á tíðum óþolandi.
Handrit myndarinnar fær auðvitað engan plús fyrir frumleika (þetta er nú einu sinni endurgerð) og maður þarf ekki háa greind til að skynja hversu þrælgötóttur söguþráðurinn er. Sem dæmi má kalla það frekar langsótt hversu erfitt það reyndist fyrir lögreglusveitina að ráðast inn á stöðina með allar þessar skotgræjur meðan öryggisgæslan var í lágmarki. Þetta eru auðvitað hlutir sem maður á síst að spá út í, enda er meginkrafan sú að skilja heilasellurnar eftir heima, og ef tekið yrði mark á trúverðugleika í myndinni væri stemmningin eflaust horfin.
Fyrir það sem hún er, þá mæli ég með Assault on Precinct 13. Þegar maður horfir á hana fer maður að ímynda sér hversu ferlega langt það var síðan maður seinast sá svona alvöru spennumynd með sífelldum kúluhríðum, brútal ofbeldi, svölu fólki og dánartali í hámarki. Skotheld formúla. Meira, takk!!
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei