Halloween í fjóra áratugi

Hin sígilda „Halloween“ (1978) eftir John Carpenter nálgast óðfluga stórafmæli og staðfest er að ný mynd er  væntanleg til að fagna þeim merkilega áfanga. Sú mun einfaldlega bera titilinn „Halloween“ (2018) og verður frumsýnd 19. október á næsta ári. Jamie Lee Curtis mun snúa aftur í myndabálkinn sem Laurie Strode og leikstjórinn er David Gordon Green („The Pineapple Express“) og mun hann og Danny McBride sjá um handritaskrif.

Upprunanlega myndin er óumdeild klassík en framhöldin eru upp og niður í gæðum svo vægt sé til orða tekið. Myndabálkurinn fer í margar áttir og er mjög ósamhæfður en ýmist hafa framhöld reynt að hefja nýja sögu, svo beint áframhald, svo beint áframhald en sleppa úr hluta af áður útgefnu efni og loks nýtt upphaf. Uppi stendur alger hrærigrautur sem ekki er fræðilegur möguleiki á að tengja saman og mun væntanlega myndin án efa sleppa einhverju af framhöldunum og tengja sig bara við hluta þeirra.

Til að fagna þessum (væntanlega) merkilega áfanga verður hér rakin saga myndanna; Halloween 1-10. Saga þeirra er gríðarlega mikil og löng og því verður stiklað á stóru.

-Taka skal skýrt fram að endum á myndum er ljóstrað upp í umfjöllun – 

„Halloween“ (1978)

„Ég sat á móti þessum sex ára strák með sviplaust andlit og með dimmustu augun. Með augu djöfulsins.“  – Sam Loomis

„Halloween“ átti upprunanlega að heita „The Babysitter Murders“ en eftir að sú ákvörðun lá fyrir að myndin ætti að gerast á hrekkjavöku breyttist nafnið. John Carpenter hafði getið af sér gott orð sem leikstjóri með hinni mögnuðu „Assault on Precinct 13“ (1976) og hann lofaði því að hann gæti skilað frá sér góðri mynd fyrir 300.000 dollara (frekar lítill peningur jafnvel árið 1978) og meðframleiðandinn og dreifingaraðilinn Moustapha Akkad gaf grænt ljós.

„Halloween“ byrjaði ekki með látum en þökk sé góðu orðspori sem gekk á milli almennings jókst aðsókn og á endanum var hún ein af vinsælustu myndum ársins og í áratugi var hún gróðamesta óháða framleiðsla allra tíma. Formúlan að hinni fullkomnu slægju (e. Slasher film) hafði litið dagsins ljós og áhrifa hennar gætir enn þann dag í dag.

Myndin:

Hinn sex ára gamli Michael Myers gengur upp í herbergi systur sinnar, Judith, á Hrekkjavökukvöldi árið 1963 og stingur hana til bana með eldhúshníf. Michael er settur inn á stofnun, Smith‘s Grove, þar sem sálfræðingurinn Sam Loomis (Donald Pleasence) reynir hvað hann getur að ná til hans.

„Ég eyddi átta árum í að reyna að ná til hans og svo sjö árum í að ganga úr skugga um að hann væri á bak við lás og slá. Ég áttaði mig á því að einungis hrein illska bjó í honum.“  – Sam Loomis

Fimmtán árum síðar flýr Michael frá Smith‘s Grove og heldur í heimabæinn Haddonfield og fær augastað á Laurie Strode (Jamie Lee Curtis) sem eyðir kvöldinu í barnapössun og vinkona hennar gerir slíkt hið sama í húsinu á móti. Michael bíður í rólegheitum þar til hann lætur til skarar skríða og áður en kvöldið tekur enda hafa nokkur ungmenni fallið í valinn og ljóst að Hrekkjavaka í Haddonfield er komin með banvænan og blóðugan blett á sögu sína.

Einföld saga en gerð á óaðfinnanlegan máta með mjög flottum sjónrænum stíl og „Halloween“ er ein besta hryllingsmynd sem gerð hefur verið. Stemningin er verulega óhugnanleg og að láta myndina gerast á hrekkjavöku framkallaði einungis aukin óhug þar sem þessi hátíð djöfla og drauga reyndist hinn fullkomni bakgrunnur.  Gríðarlegar vinsældir myndarinnar sáu svo til þess að fæstir hátíðisdagar í Bandaríkjunum fengu að sleppa við að blóði drifin slægja myndi eigna sér hann.

„Halloween“  kostaði ekki mikinn pening og t.a.m. var eina kvikmyndastjarnan, Donald Pleasence, einungis fáanlegur í fimm tökudaga. Leikararnir, sem flestir voru annaðhvort kunningjar Carpenters eða algerir nýliðar, þáðu lítil laun eða vilyrði fyrir einhvers konar greiðslum ef myndinni vegnaði vel. Annar liður í sparnaði var sá að John Carpenter sá um tónlistina og þykir hún ein sú best heppnaða í hryllingsmyndum og þemalagið er löngu orðið klassískt.

Það er varla hægt að finna gagnrýnanda sem gefur myndinni ekki hæstu einkunn og sér í lagi er það þökk sé óvættinum Michael Myers. Hann er ekki bara manneskja sem leitast eftir að drepa heldur hreint afl af illsku sem ekki er hægt að spá fyrir um, færa rök fyrir né tala til og er samviskulaus, hægfara vélræn vera sem býr yfir ómannlegri þolinmæði. Í stuttu máli þá er Michael Myers mjög ógnvekjandi persóna og hvergi hefur hann virkað jafn vel og í frummyndinni.

„Halloween“ var með mjög opinn endi og með honum varð öllum ljóst að Michael Myers var meira en bara mannleg vera. Það reyndist afdrifarík ákvörðun.

„Halloween II“ (1981)

„Ég skaut hann sex sinnum. Hann er ekki mannlegur.“ – Sam Loomis

Frá því að „Halloween“ kom út og þremur árum seinna var ljóst að formúlan var að svínvirka og fleiri myndir í svipuðum dúr, en ekki í sama gæðaflokki, voru að moka inn seðlunum (sbr. „Friday the 13th“ (1980) og margar fleiri). Því var ákveðið að ráðast í gerð framhalds.

Yfirskriftin var að framhaldsmyndin ætti að vera blóðugri og hækka tölu fórnarlamba en þannig var þróunin hjá slægjum. Það vantaði þó ekki metnaðinn og viljann í að gera framhald sem myndi vera á pari við frummyndina. John Carpenter var í hlutverki framleiðanda og náinn vinur hans, Rick Rosenthal, sá um leikstjórn.

Myndin:

Michael Myers heldur áfram að eltast við Laurie Strode á sama hrekkjavökukvöldinu og læknirinn hans, Sam Loomis, reynir hvað hann getur að hafa upp á honum. Laurie er flutt á Haddonfield Memorial spítalann og fyrr en varir er Michael búinn að koma sér þar inn og drepur marga starfsmenn áður en til uppgjörs kemur.  Loomis fær nýja vitneskju sem setur alla atburðarrásina í nýtt samhengi þegar hann fréttir að Michael og Laurie eru í raun systkini.

„Sérðu ekki hvað er gerast! Hann drap eina systur fyrir fimmtán árum síðan og nú snéri hann aftur til að drepa hina.“ – Sam Loomis

Sagan á bak við „Halloween II“ er löng og áhugaverð. Í stuttu máli þá skilaði Rosenthal frá sér mynd sem lagði mikið upp úr stemningu og lágmarks blóðsúthellingum og þótti mikið í anda forvera síns. Þetta leist framleiðandanum Carpenter ekki nógu vel á og krafðist þess að meira blóð prýddi tjaldið og réðist því í endurtökur sem, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, Carpenter sjálfur skaut. Þar sem hann og Debra Hill sáu um handritaskrif var það þeirra ákvörðun að láta Laurie og Michael vera blóðskyld en ekkert gaf til kynna um það í frummyndinni. Lengri útgáfan af „Halloween“ (svonefnd „The Extended Television Cut“) inniheldur atriði sem Carpenter skaut árið 1981 þar sem frumsýning „Halloween II“ í kvikmyndahúsum var rétt á eftir frumsýningu „Halloween“ í sjónvarpi. Í þeim aukaatriðum er grunnurinn lagður að þeirri staðreynd að Michael og Laurie eru systkini.

Persónuleg skoðun undirritaðs er að „Halloween II“ sé eitt af betur heppnuðu framhöldunum og nýtur hún þeirrar sérstöðu að vera fyrsta framhaldið sem hefst á nákvæmlega sama tíma og fyrri myndin endaði og báðar gerast þær á sama kvöldinu. Myndinni var ekki vel tekið af gagnrýnendum en almenningur flykktist á myndina. Ólíkt frummyndinni þá var ekki opinn endir hér og allt útlit fyrir að Michael væri steindauður (og Loomis einnig) og því var önnur stefna tekin þegar þriðja myndin kom út.

„Halloween III: Season of the Witch“ (1982)

„Brátt kemur morgunn. Þá er Hrekkjavaka komin. Það er annasamur dagur hjá mér.“ – Conal Cochran

Myndin:

Óttasleginn maður knýr á dyr bráðamóttökunnar á spítala einum og er lagður inn. Hann heldur þéttingsfast um grímu og babblar eitthvað sem enginn skilur neitt í. Stuttu seinna kemur jakkafataklæddur maður inn á stofu hans og drepur manninn í augsýn læknisins Daniel Challis (Tom Atkins). Svo heldur jakkafataklæddi maðurinn út í bíl sinn og sprengir hann í loft upp á bílastæðinu.

Challis ákveður að kafa ofan í dularfulla málið og rannsóknin leiðir hann til smábæjar þar sem Silver Shamrock verksmiðjan er sem framleiðir alls kyns dót; þ.á.m. grímur sem seljast í tonnavís fyrir hrekkjavöku. Hann kemst á snoðir um eiganda hennar, Conal Cochran (Dan O‘Herlihy), sem hefur banvænt ráðabrugg í hyggju þar sem hann hyggst drepa milljónir barna á hrekkjavökukvöldinu sjálfu.

Hér var ný stefna tekin og Carpenter, aftur í hlutverki framleiðanda, og leikstjórinn Tommy Lee Wallace („It“ frá 1990) sáu fyrir sér áframhaldandi myndaseríu sem myndi halda nafninu og koma með sjálfstæða sögu sem myndi eiga sér stað á hrekkjavöku. Vandamálið var að áhorfendur töldu sig illa svikna þegar Michael Myers var fjarri góðu gamni og myndin kolféll í miðasölu og fékk einnig dræmar viðtökur frá gagnrýnendum. „Halloween III“ á meira skylt við vísindaskáldsögur eins og „Invasion of the Body Snatchers“ (1956) og þrátt fyrir vel framreiddan viðbjóð og blóðsúthellingar átti þessi stefnubreyting engan veginn upp á pallborðið hjá almenningi.

Tíminn læknar mörg sár og í dag þykir „Halloween III“ hin fínasta hryllingsmynd. Vel gerð, vel leikin, hörkuspennandi og óvenju grimm; í dag telst hún „költ“ klassík og ljóst er að hefði hún verið bara stök mynd og ekki tengst „Halloween“ heiminum hefði hún hlotið sanngjarnari meðferð frá byrjun.

En ljóst var að þörf var á Michael Myers ef áfram skyldi halda.

„Halloween 4: The Return of Michael Myers“ (1988)

„Kannski veit enginn hvernig á að stoppa hann. En ég verð að reyna.“ – Sam Loomis

Framleiðandinn Moustapha Akkad keypti réttinn að seríunni og gaf grænt ljós á nýtt framhald. Þó slægjur væru á undanhaldi eftir að hafa verið mjög áberandi (og gróðavænar) snemma á áratugnum var talið að þekkt nöfn trekktu enn að þar sem Jason Voorhees („Friday the 13th“ myndabálkurinn) og Freddy Krueger („Nightmare on Elm Street“ myndabálkurinn) skiluðu arði fyrir kvikmyndafyrirtækin. Fjórða myndin bar undirtitilinn „Endurkoma Michael Myers“ og því fór ekki á milli mála að aðdáendur fengju það sem þeir vildu.

Myndin:

Undanfarin 10 ár hefur Michael Myers legið í dái á spítala og er í hámarkaöryggisgæslu (en svo virðist að hann og Loomis hafi á einhvern undraverðan hátt lifað af hremmingarnar í lok „Halloween II“). Í upphafi myndar stendur til flutningur á honum og á leiðinni spjalla tveir sjúkraliðar og nefna að Laurie Strode (sem á að hafa látið lífið í bílslysi í millitíðinni) hafi eignast dóttur, Jamie (Danielle Harris) sem býr í Haddonfield hjá fósturforeldrum. Við þetta sperrir Michael eyrun og vaknar með tilþrifum, drepur sjúkraliðana og heldur til Haddonfield sem er í þann mund að gera bæinn kláran fyrir hrekkjavöku.

Loomis fréttir af flótta Michael og heldur til Haddonfield til að reyna að hafa upp á Michael og drepa hann í eitt skipti fyrir öll.

Pínu þunnur þrettándi en þegar allt kemur til alls er þessi fjórða mynd afskaplega vel heppnuð. Mikið er lagt upp úr stemningu, drungalegu andrúmslofti og lítið fer fyrir subbuskap (en þó var svolitlu bætt inn eftir að prufusýningar leiddu í ljós að áhorfendur vildu aðeins meira blóð). Eltingarleikur Michaels við litlu frænku sína er spennandi, aðrar persónur eru vel af hendi leystar (s.s. fóstursystir Jamie, lögreglustjórinn í bænum sem strax hefst handa við að bregðast við aðstæðum) og endirinn gefur lofandi fyrirheit um áhugaverða stefnu sem frekari framhöld gætu stefnt að. Því miður varð það ekki raunin.

Svo ljúga tölurnar ekki og myndin gerði það gott í miðasölu og gagnrýnendur voru óvenju lofsamir um myndina. Gróðahyggjan réð því ríkjum þegar strax var anað út í fimmta hluta myndabálksins.

„Halloween 5: The Revenge of Michael Myers“ (1989)

„Ég óskaði þess að hann brynni í helvíti. En í hjarta mínu vissi ég að helvíti myndi ekki vilja hann.“ – Sam Loomis

Hér byrjar bullið fyrir alvöru.

Fjórða myndin gaf til kynna að Jamie væri haldin sama sjúkleika (hver svo sem hann er) og frændi hennar og lokaskotið var hreint magnað en þá hafði hún ráðist að fósturmömmu sinni á mjög svipaðan hátt og Michael hafði gert þegar hann var sex ára gutti. Þessari áhugaverðu nálgun var fleygt út og fimmta myndin er bara endurtekning á þeirri fjórðu nema hvað að spennu og stemningu er fórnað fyrir innantómum blóði drifnum aftökum, illa heppnuðum aulahúmor og furðulegum „twist“ endi sem bjó til helling af spurningum og engin svör fengust.

Myndin:

Eftir að komast í gegnum hremmingarnar í lok fjórðu myndarinnar finnur illa útleikinn Michael hús þar sem einbúi virðist lifa. Þar sefur hann í eitt ár og vaknar rétt áður en næsta Hrekkjavaka hefst.

Jamie hefur á því ári verið vistuð á sjúkrahúsi og er mállaus en virðist vera andlega tengd frænda sínum. Hún sér því þegar hann vaknar aftur og upphefst eltingarleikur á ný. Óþekktur einstaklingur, með skrítið húðflúr á hendinni,  fylgist með í fjarska og í ljós kemur að Michael er með sama húðflúrið og hann.

Flestir sem komu að gerð „Halloween 5“ hafa viðurkennt að hér hafi þeir farið af sporinu. Í örvilnun til að troða einhverju nýju inn var fundinn upp svartklæddur maður sem fylgdist með Michael og kom honum til bjargar í lokaatriðinu. Stundum haldast sölutölur og gæði í hendur og þessi sló ekki í gegn, fékk hrikalega útreið hjá gagnrýnendum og aðdáendur myndabálksins setja þessa, og þá áttundu, iðulega í síðasta sætið.

Í ljós hefur komið að handritshöfundar höfðu ekki hugmynd um hver þessi svartklæddi maður væri eða hvaða tilgangi hann þjónaði. Það myndi vera hausverkurinn fyrir næstu mynd og þann sem skrifaði hana.

„Halloween: The Curse of Michael Myers“ (1995)

„Ég vissi hvað hann var. En ég vissi aldrei af hverju.“ – Sam Loomis

Myndin:

Sex ár hafa liðið síðan óþekktur maður hjálpaði Michael að sleppa úr fangelsi og Jamie var numin á brott í ringulreiðinni sem fylgdi. Hópur af fylgjendum Michael sem hafa aðsetur í neðanjarðarbyrgi hafa hýst þau á þeim tíma og þegar myndin hefst sleppur Jamie í burtu með nýfætt barn sitt. Michael eltir hana og drepur en ekki áður en Jamie tókst að koma barninu í öruggt skjól; að minnsta kosti tímabundið.

Í Haddonfield býr Tommy Doyle (Paul Rudd) en árið 1978 var hann einn af börnunum sem Laurie var að passa og kynni hans við Michael höfðu mikil áhrif á hann. Hann hefur eytt miklum tíma í að kynna sér mögulegan uppruna illsku Michael og tengir þær við fornar rúnir, gamlar keltneskar siðavenjur og óvenjulega samstillingu stjarnanna. Þegar stjörnurnar mynda sama mengi og húðflúrið sem Michael skartar (oftast á Hrekkjavöku) fer hann á sjá.

Inn í söguna fléttast einnig fjölskylda sem býr í gamla Myers húsinu; Tommy finnur barnið hennar Jamie og Loomis reynir enn eina ferðina að handsama Michael. Michael hefur í nógu að snúast.

Þetta hljómar eins og alger þvæla en ásetningurinn var góður og merkilega metnaðarfullur. Hanritshöfundurinn Daniel Farrands fékk það vandasama verk að koma með baksögu fyrir þennan svartklædda mann og af hverju hann frelsaði Michael úr fangelsinu. Upprunanlega sýnishornið á myndinni gaf til kynna að myndin héti „Halloween 666: The Origin of Michael Myers“ og aðdáendur biðu spenntir. Þeir urðu hálf undrandi þegar myndin var frumsýnd undir titlinum „The Curse of Michael Myers“ og þeir glöggu sáu vel að mörg atriði úr sýnishorninu voru ekki í myndinni sjálfri.

Tíminn leiddi í ljós að útgáfan sem var prufusýnd féll ekki í góðan jarðveg og ráðist var í umtalsverðar endurtökur. Það sem gerði þær enn snúnari var að á þeim tíma lést Donald Pleasence og því varð að skjóta atriði sem innihéldu ekki Loomis. Útkoman var frekar sundurslitin saga sem innihélt þessa upprunasögu Michael í bland við hefbundna slægju og endirinn var einstaklega snubbóttur og illskiljanlegur.

Nokkrum árum seinna dúkkaði svo upp svokölluð „Producer‘s Cut“ af myndinni og var hún einungis fáanleg í sjóræningjaútgáfum á eBay og öðrum netmiðlum. Árið 2014 var svo gefið út Blu-ray safn af öllum myndunum og stærsti bitinn þar var einmitt sú útgáfa af myndinni í blússandi háskerpu. Þar fengu aðdáendur loks að sjá hvernig myndin var hugsuð og sú útgáfa er snöggt um skárri en sú sem kom út árið 1995.

Í grunninn þá fylgir myndin sömu atburðarrás en margt er betur útskýrt og endirinn er loks skiljanlegur. Í það minnsta var þetta betri svanasöngur fyrir Pleasence og hans persóna fékk einhvers konar endalok. Í stuttu máli þá er „Producer‘s Cut“ eintakið af myndinni betrumbót en fæstir voru hrifnir af þessari útskýringu á illsku Michaels til að byrja með.

„Halloween H20: Twenty Years Later“ (1998)

„Fyrir tuttugu árum síðan reyndi bróðir minn að drepa mig.“ – Laurie Strode

Mikil stemning var fyrir að gera nýja Halloween mynd þegar frummyndin myndi fagna 20 ára afmæli sínu. Til stóð að gera sjónvarpsmynd en þegar Jamie Lee Curtis sýndi áhuga á að snúa aftur var meira púður lagt í verkefnið. Kevin Williamson („Scream“, „I Know What You Did Last Summer“) var fenginn til að koma með hugmyndir sem og Daniel Farrands (endanlegt handrit er þó skráð á aðra höfunda) og upprunanlega stóð til að tengja saman allar Michael Myers myndirnar en raunin varð önnur. Leikstjórinn Steve Miner og Curtis ákváðu að sniðganga myndir 4-6 og gera „H20“ að beinu framhaldi við „Halloween II“ til að leggja enn meiri áherslu á Laurie/Michael söguþráðinn.

Myndin:

Keri Tate/Laurie Strode (Curtis) er skólastjóri í fínum einkaskóla í Kaliforníu og býr á skólasvæðinu ásamt 17 ára syni sínum John (Josh Hartnett). Hrekkjavaka nálgast óðfluga og þá verða 20 ár liðin frá því örlagaríka kvöldi þegar Michael Myers snéri heim og drap vini Laurie og reyndi að drepa hana. Í langan tíma hefur hún notað dulnefni og farið huldu höfði af ótta við að bróðir hennar gæti fundið hana einn daginn.

Svo vill til að Michael hefur komist á snoðir um systur sína og heldur rakleitt til einkaskólans til að gera út af við systur sína.

Sama vandamálið plagar „H20“ og gerði fjórðu myndina en það er enn erfitt að kaupa það að Loomis og Michael skyldu hafa lifað af öll ósköpin í lok „Halloween II“. Svo á Michael að hafa beðið bara pollrólegur í 20 ár eða að minnsta kosti átt skrambi erfitt með að finna Laurie. Svo finnst manni frekar dónalegt að hunsa þrjú framhöld og biðja aðdáendur bara um að gleyma því sem á undan hefur gengið.

En þrátt fyrir það allt saman þá er „H20“ besta framhaldið í myndabálknum. Sagan er sáraeinföld og myndin örstutt (rétt um 80 mínútur) en hún kemst næst frummyndinni í að skapa magnaða stemningu og drungalegt andrúmsloft og mörg atriði eru einstaklega vel heppnuð og áhrifarík. Jamie Lee Curtis er fantagóð í hlutverki Laurie og lokaslagur þeirra systkina er hreint frábærlega af hendi leystur (en meira um hann aðeins neðar). Aðrir leikarar standa sig einnig mjög vel en myndin býr yfir besta leikarahópnum með Adam Arkin („Chicago Hope“), Hartnett og Michelle Williams í burðarhlutverkum. Meira að segja er rapparinn LL Cool J verulega skemmtilegur í aukahlutverki hér.

„H20“ gekk vel í miðasölu og fékk almennt mjög góða dóma. Allt útlit var fyrir að nú væri sagan á enda þar sem Michael varð höfðinu styttri eftir blóðug átök við systur sína. Hreint magnaður endir á vel heppnaðri mynd en gróðafíkn og mjög skrítin dómgreind þeirra sem ráða sýndi að endirinn var bara „allt í plati“.

„Halloween: Resurrection“ (2002)

„Ég vissi að þú myndir hafa upp á mér á endanum.“ – Laurie Strode

Myndin:

Michael læðist inn á geðsjúkrahús þar sem hann finnur fyrir systur sína, Laurie, sem er vistmaður þar og búin að vera í nokkur ár. Í ljós kom að Laurie afhausaði óvart lögreglumann en ekki bróður sinn á því örlagaríka kvöldi þegar Michael hafði loks upp á systur sinni í einkaskólanum í Kaliforníu. Eftir stutt átök þeirra á milli þá drepur Michael loks systur sína.

Restin af myndinni greinir frá skólakrökkum sem halda í húsið þar sem Michael ólst upp og vilja sýna frá lífsreynslunni beint á netinu. Michael birtist auðvitað og slátrar þeim með tilþrifum. Hann á þó helst í erfiðleikum með fullorðna framleiðanda verkefnisins (Busta Rhymes) sem reynist frekar erfiður mótherji.

Þessi er sú allra versta í myndabálknum og það sem verra er; hún gerir að engu allt sem „H20“ gerði svo vel og eyðileggur framtíðaráhorf algerlega. Þar sem það virkaði vel að nota rappara í myndinni á undan var Busta Rhymes fenginn í burðarhlutverk hér og hann stórskemmir öll atriði sem hann leikur í. Viðtökur „Resurrection“ voru dræmar, dómar hræðilegir og serían, sem virtist ætla að kveðja með stæl, endaði á lágu plani. Auðvitað endar Michael á að opna augun í síðasta rammanum eftir að hafa verið lúbarinn, stunginn, skotinn og „raflostaður“ en fáir höfðu áhuga á að sjá hann snúa aftur.

Það þurfti vinsælan þungarokkara og nýtt upphaf til að blása frekara lífi í Michael Myers.

„Halloween“ (2007)

„Í okkur öllum býr myrk hlið. Flestir ná að yfirstíga hana en hún umlykur aðra. Fyrir þá verður svo ekkert eftir annað en…hrein illska.“ – Samuel Loomis

Menn biðu óneitanlega spenntir eftir „Halloween“ eftir Rob Zombie. Því var lofað að nú fengi fólk að vita af hverju Michael þróaðist í að verða að þeirri hreinu illsku sem hann varð. Zombie hafði þegar getið af sér gott orð sem leikstjóri eftir hina stórundarlegu en fínu „House of 1.000 Corpses“ (2003) og hinni þrælgóðu „The Devil‘s Rejects“ (2005).

Myndin:

Hinn 10 ára gamli Michael Myers (Doug Faerch) á ekki sjö dagana sæla í því umhverfi sem hann elst upp í. Hann tilheyrir hinni óæskilegu hvítu lágmenningarstétt (e. White trash) þar sem móðir hans Deborah (Sheri Moon-Zombie) halar inn aukapening sem fatafella, stjúpi hans (William Forsyth) er snælduruglaður róni sem getur ekki sleppt úr sér einni setningu án þess að blóta hressilega og eldri systir hans Judith er með brókarsótt og neytir einnig eiturlyfja. Eini bjarti punkturinn í tilverunni er litla systir hans sem er enn bara smábarn. Litli Michael er þó greinilega ekki alveg í lagi þar sem hann pyntar dýr og fljótt drepur hann einn samnemanda sinn sem var að hrella hann. Kvöld eitt ákveður Michael að drepa stjúpa og Judith.

Michael er vistaður á Smith‘s Grove sjúkrahúsinu og geðlæknirinn Samuel Loomis (Malcolm McDowell) tekur hann að sér. Smám saman hverfur sá litli persónuleiki sem Michael bjó yfir og hann felur sig á bak við grímur þar til hann endanlega hverfur í myrkt hyldýpi. Deborah fremur sjálfsmorð og litla systir er sett í fóstur hjá Strode fjölskyldunni.

Kvöld eitt flýr Michael frá Smith‘s Grove og heldur til Haddonfield þar sem til uppgjörs við litlu systur og fleiri kemur á hrekkjavökukvöldi einu.

Fyrri helmingurinn er nýr af nálinni þar sem Zombie reynir að útskýra hvers vegna illmennið Michael Myers varð til. Seinni helmingurinn er svo að mestu hraðsoðin endurgerð á fyrstu myndinni. Versta er að hvorugur hlutinn er sérlega vel heppnaður þó ásetningurinn sé góður. Zombie virðist ekki kunna að skrifa öðruvísi persónur en þær sem teljast til „white trash“ hópsins og hegðun þeirra, orðbragð og orðaforði virðist vera frá annarri vídd frekar en frá öðrum þjóðfélagshóp. Það er ekki skrítið hvers vegna Michael þróaðist í að verða skemmt epli en hér finnst manni Zombie líka klikka á ákveðnum grundvallarhlut. Það ógnvænlega við Michael Myers var að hluta það sem fólk vissi ekki frekar en hvað það vissi og að gefa drengnum svona hrikalega æsku dregur úr óhugnaðinum sem áhorfendur urðu að geta sér til um áður.

Seinni helmingurinn er svo eins og „Halloween“ (1978) þegar „fast-forward“ takkinn er notaður í sífellu. Styrkur Zombie er að búa til harðneskjuleg atriði og það gerir hann vel hér en Michael er einstaklega hrottalegur og ofbeldið er það grimmilegasta í myndabálknum. Það er lítið um þá drungalegu stemningu og andrúmsloft sem frummyndin náði að framkalla svo eftirminnilega.

En „Halloween“ (2007) gekk vel í miðasölu og var svo sannarlega þúsund skref upp á við þegar „Resurrection“ er höfð í huga. Endirinn virkaði nokkuð endanlegur og því var það ekkert öruggt að framhald myndi verða að þessari.

„Halloween II“ (2009)

„Michael Myers er steindauður.“ – Samuel Loomis

Þegar ljóst var að framhald yrði gert að „Halloween“ (2007) vildi Rob Zombie ekki að einhver annar myndi rústa sýn hans og hann tæklaði næsta kaflann.

Myndin:

Á einhvern undraverðan hátt lifði Michael hremmingarnar af og lætur sig hverfa einhvers staðar út í skóg. Á sama tíma í Haddonfield á Laurie Strode (Scout Taylor Compton) erfitt að með aðlagast tilverunni á nýjan leik eftir hrikalegu atburði síðustu hrekkjavöku og sýnir greinileg merki áfallastreituröskunar og hugsanlegrar geðveilu. Næsta hrekkjavaka nálgast óðfluga og Michael röltir rólegur í áttina að Haddonfield til að gera upp sakir við systur sína.

Forverinn rammaði Zombie inn á vissan hátt þar sem hann lagði í upprunasögu Michael og greindi í kjölfarið frá endurkomu hans til heimabæjar síns. Þrátt fyrir hvað mikil áhersla var lögð á að kalla myndina „nýtt upphaf“ þá var um vissa endurgerð að ræða og „Halloween“ (2007) var frekar hefðbundin og skiljanleg mynd. „Halloween II“ (2009) er allt annað en hefðbundin og skiljanleg og flakkar ósjaldan á milli ímyndaðra atvika og raunverulegra og greinilegt er að Zombie hafði háleitara markmið en að gera einfalda slægju. Sem fyrr er hún einstaklega hrottaleg og ofbeldisfull og leikstjórinn er óneitanlega hæfileikaríkur í að framkalla ónotalega stemningu og búa til flottan sjónrænan stíl. Einnig er leikarahópurinn hreint frábær í báðum Halloween myndum Zombies en það er einn af hans bestu kostum að velja rétta leikara í hlutverk.

„Halloween II“ sló ekki í gegn hjá almenningi né hjá gagnrýnendum. Hún skilaði arði en ljóst var að nýja „súrrealíska“ nálgunin átti ekki upp á pallborðið og serían var enn og aftur komin á endastöð. Í smá tíma var leikstjórinn Patrick Lussier („My Bloody Valentine 3-D“, 2009) orðaður við enn eitt nýtt upphaf sem átti að vera framleitt í þrívídd en aldrei varð neitt úr því og myndaflokkurinn virtist hafa sungið sitt síðasta.

„Halloween“ (2018)

Eins og Loomis hefur ítrekað sagt þá deyr hið illa aldrei og Michael mun snúa aftur á hvíta tjaldið á næsta ári. Það vekur athygli að Jamie Lee Curtis snúi aftur sem Laurie Strode en leikkonan virðist dragast að þessari persónu sinni á tuttugu ára fresti og spennandi verður að sjá hver söguráðurinn verður. Ljóst er að hún getur ekki fylgt á eftir „H20“ (´98 – þar sem Michael deyr) eða „Resurrection (´02 – þar sem Laurie deyr) og því er mögulegt að hún verði beint framhald að „Halloween II“ (´81) og þá hafa liðið 40 ár frá því að Michael snéri heim og byrjaði að murka lífið úr táningum og starfsmönnum á spítalanum í Haddonfield.