Ég myndi segja að King Arthur væri misheppnuð tilraun, en þá yrði ég alltof örlátur við hana.
Fyrir utan gott útlit er fátt annað hérna í gangi sem er virkilega hróssins virði. Þessi mynd er bara standard klisja og ekkert annað. Hér er farið illa með fræga sögu og ætlast er til að hún sé byggð á einhverjum týndum heimildum. Ég skil ekki hvers vegna handritshöfundurinn David Franzoni (sem meðskrifaði m.a. Gladiator) lét verða af því að breyta goðsögn yfir í formúlukennda Hollywood-ævintýramynd sem tekur sjálfa sig fullalvarlega. Leikstjórinn Antoine Fuqua ætti líka aldeilis að halda sig við nútímann, því hann gerir ekkert hér sem getur flokkast undir frumlegt eða áhugavert. Mér finnst hann reyndar bara yfirhöfuð slæmur leikstjóri. Hann stóð t.d. á bakvið Training Day, sem er einhver ofmetnasta mynd í heimi, og svo loks Tears of the Sun, og því minna sem ég segi um þá hörmung því betra.
Annað sem þessa mynd skortir er persónusköpun. Allar meginpersónurnar eru svo skelfilega þunnar og því verða þær sjálfkrafa óspennandi. Við gægjumst einungis rétt aðeins inn í persónulegt líf þeirra í 5 mínútur eða svo, en eftir það breytast þær í skrípafígúrur. Mér var alveg nákvæmlega sama um hver myndi lifa af eða deyja því handritið gefur manni enga ástæðu til að halda með eitthvað af þessu fólki. Leikararnir gera sitt besta og tekst þeim Clive Owen og Keira Knightley að gera kostulega hluti, en þar sem hlutverkin eru svo illa skrifuð og samtölin enn verri þýðir ekkert að hrósa þeim neitt frekar. Aðstandendur hefðu alvarlega þurft að lesa handritið áður en þetta rugl var fjármagnað. Meira að segja bardagasenurnar eru ekkert sérstakar. Það bætir heldur ekki úr skák að þau virka ósannfærandi þar sem blóð er í minnsta magni, enda PG-13 stimpill hér á ferð. Slæm ákvörðun.
Ég bið þá sem virða goðsögnina að láta þessa slátrun í friði. Ég skil ekki hvernig Jerry Bruckheimer getur endalaust blandað sér út í svona vitleysur. King Arthur er sóun í orðsins fyllstu merkingu; Sóun á sviðsmyndum, sóun á leikurum, sóun á peningum, sóun á TÍMA. Sem betur fer skilur hún ekkert eftir sig. Þetta er eins og að horfa á Monty Python and the Holy Grail án brandaranna.
2/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei