Matthew Vaughn aftur í leikstjórann

Matthew Vaughn, leikstjóri X-Men: First Class og Kick-Ass, handritshöfundur X-Men: Days of Future Past og framleiðandi Kick-Ass 2 og næstu Fantastic Four myndar svo eitthvað sé nefnt, virðist vera á leiðinni í leikstjórastólinn á nýjan leik.

Vefsíðan Deadline.com segir að kvikmyndafyrirtækið 20th Century Fox hafi keypt dreifingarréttinn að kvikmyndagerð leikstjórans breska á teiknimyndabókum Mark Millar og Dave Gibbon, The Secret Service, og stefnt sé að því að myndin fari í bíó árið 2014.

Vaughn kom fyrst að verkefninu árið 2011, stuttu eftir að hann var búinn með X-Men: First Class, og nú virðist sem myndin sé loksins tilbúin til að fara á næsta stig, en vefsíðan segir að tökur muni hefjast í ágúst nk.

Vaughn sér sjálfur um aðlögun teiknimyndabókanna að hvíta tjaldinu í félagi við Jane Goldman, en sögurnar fjalla um gamalreyndan leyniþjónustumann sem fær það verkefni að þjálfa ungan frænda sinn á sama tíma og hann þarf að finna týndar vísindaskáldsgöguhetjur, rannsaka morð á hverri einustu persónu í litlum bæ og rannsaka drungalegt leyndarmál þar sem Mount Everest kemur við sögu.

Vaughn og Goldman hafa unnið saman í mörg ár. Auk þess að skrifa X-Men: First Class þá skrifaði handritsdúóið handritin að bæði Kick-Ass og Stardust.

Síðan Vaughn leikstýrði sinni fyrstu mynd Layer Cake árið 2004, með Daniel Craig – James Bond, í aðalhlutverki, þá hefur Vaughn verið eftirsóttur leikstjóri og það verður spennandi að sjá hvernig hann vinnur úr The Secret Service.