Maður fær raflost hjá Cruise

Þetta gæti verið beint úr einhverri Tom Cruise spennumyndinni, en sl. sunnudag var maður handtekinn fyrir meint innbrot inn á lóð Tom Cruise í Beverly Hills í Hollywood. Öryggisverðir Cruise sáu manninn hoppa yfir girðingu og gáfu honum raflost með rafbyssu.

Maðurinn er sagður hafa verið 41 árs gamall ölvaður nágranni Cruise.

Atvikið er sagt hafa átt sér stað um kl. hálf tíu að kvöldi, en þá sá öryggisvörður manninn vera að klífa girðinguna sem umkringir lóðina. Manninum var umsvifalaust gefið raflost og haldið þar til lögreglan kom og stakk honum í grjótið. Hlúð var að honum á sjúkrahúsi vegna meiðsla sem hann hlaut af raflostinu úr rafbyssunni.

Cruise og fjölskylda voru ekki heima þegar þetta gerðist.