Málmhaus vakti mikla athygli á TIFF

malmhausÍslenska kvikmyndin Málmhaus var heimsfrumsýnd um síðustu helgi á TIFF (Toronto international film festival) Sýningin gekk vonum framar og eru aðstandendur Málmhauss hæstánægðir. Salurinn var fljótur að fyllast og komust færri að en vildu. Áhorfendur virtust skemmta sér vel og var hlegið jafnt sem grátið á meðan á sýningunni stóð.

Hátt í 2.000 gestir sáu sýninguna á fimm sýningum, þar á meðal kanadískur almenningur, blaðamenn og kvikmyndagerðarfólk frá öllum heimshornum.

Að sýningu lokinni uppskáru aðstandendur Málmhauss mikið lófaklapp. Sátu flestir kvikmyndagestir sem fastast í sætum sínum eftir að sýningu á myndinni lauk og biðu óþreyjufullir eftir að fá að spyrja Ragnar Bragason leikstjóra myndarinnar og Þorbjörgu Helgu Þorgilsdóttur aðalleikkonu Málmhauss spjörunum úr.

Miklar viðræður eru nú í gangi um hvert skal haldið með myndina og urðu aðstandendur Málmhauss varir við mikinn áhuga erlendra aðila á myndinni.

Stikk: