Leikföngin lang tekjuhæst

Pixar og Disney teiknimyndin Toy Story 4 fór á topp bandaríska bíóaðsóknarlistans nú um helgina, en tekjur myndarinnar námu 118 milljónum bandaríkjadala, sem þýðir að myndin er ein tekjuæsta teiknimynd á frumsýningarhelgi í sögunni. Þó voru tekjurnar lægri en búist hafði verið við fyrirfram, eins og segir í The Hollyood Reporter.

Myndin var samhliða frumsýningu í Bandaríkjunum frumsýnd víða annarsstaðar, eins og hér á Íslandi m.a. Utan Bandaríkjanna námu tekjur myndarinnar 120 milljónum dala, og samtals voru tekjurnar því 238 milljónir dala yfir helgina.

Spár höfðu gert ráð fyrir 140 milljóna dala frumsýningarhelgi myndarinnar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að hafa einungis náð að 118 milljóna dala tekjum, er myndin ein af þremur kvikmyndum sem náð hafa yfir 100 milljóna dala markið í Bandaríkjunum á frumsýningarhelgi í ár.

Tekjuhæstu teiknimyndir allra tíma á frumsýningarhelgi eru Incredibles 2, með 183 milljónir dala, Finding Dory, með 135 milljónir og Shrek the Third með 125 milljónir.

Toy Story 4 er leikstýrt af Josh Cooley, og hefur fengið góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Þannig er myndin 98% fersk á Rotten Tomatoes vefnum. Með helstu hlutverk fara sem fyrr Tom Hanks sem Viddi, Tim Allen sem Bósi ljósár og Annie Potts sem smalastúlkan Bo Peep.

Hvað nýjar persónur í myndinni varðar þá má þar nefna Forky, sem Tony Hale leikur, og dúkkuna Gabby, sem Christina Hendricks leikur.

Af öðrum nýjum myndum í Bandaríkjunum þá var Child´s Play sú önnur aðsóknarmesta, með 14 milljónir dala í tekjur, og Luc Besson myndin Anna, með einungis 3,5 milljónir dala, en það þýðir að frumsýningarhelgi Önnu er sú versta á ferli Besson.