Leikarar flykkjast til Oz

Næsta mynd leikstjórans Sam Raimi, Oz, the Great and Powerful, safnar nú að sér leikurum og er komin með heldur myndarlegan hóp. Eins og við greindum frá fyrir nokkru síðan gerist myndin á undan The Wizard of Oz frá árinu 1939 og fjallar um galdrakarlinn víðfræga.

James Franco fer með hlutverk hins unga töframanns úr upprunalegu myndinni, en eftir hrikalegt loftbelgsslys lendir hann í hinu dularfulla Oz. Leikarar á borð við Michelle Williams, Rachel Weisz, Joey King og Mila Kunis hafa gengið til liðs við Franco og Raimi, sem og gamanleikarinn Zach Braff. Braff þekkja flestir úr sjónvarpsþáttunum Scrubs, en hann fer með hlutverk Frank, aðstoðarmann galdramannsins.

Eins og stendur mun Oz, the Great and Powerful birtast okkur á hvíta tjaldinu í byrjun árs 2013.