Ef eitthvað hefur sannað sig ítrekað, þá er það sú regla að Tom Hardy er alltaf bestur þegar hann er ekki í lagi. Eins og óteljandi taktar frá honum hafa sýnt (hvort sem það kemur frá Warrior, Legend Lawless, Mad Max eða Venom) er maðurinn hreint dásamlegur þegar allir taumar eru teknir frá honum, ekki með ósvipuðu sniði og fylgir oft okkar ástsæla Nicolas Cage – nema Hardy er undantekningarlaust áreiðanlegur, alltaf – meira að segja í hans slakari myndum.
Það verður að viðurkennast ákveðin dirfska í þeim vinkli að gera „bíó-pikk“ um hinn alræmda mafíósa, Alphonse Al Capone, og aðeins segja frá síðasta árinu í hans lífi. Þá var hann kominn úr fangelsi og fluttur í glæsihús í Flórída. Áður en hann dó í janúar 1947, 48 ára gamall, var hann orðinn fársjúkur eftir að hafa smitast af sárasótt á fangelsisárunum og leyfir þessi kvikmynd þar af leiðandi aðalleikaranum að túlka mafíósann upp á sitt bugaðasta. Hreyfigeta hans er takmörkuð, endurlitin mörg, skapofsinn mikill, vindlarnir í tonnatali og hefur hann hvorki stjórn á orðum sínum frekar en hægðum. Smám saman verður draumaaðsetrið í Flórída að ókunnugum stað eftir því sem heilaprísundin verður óbærilegri – og mörk raunveruleikans og martraða renna saman í eitt.
Í myndinni glímir Capone við magnandi rýrnun heilsu sinnar, fortíðardrauga, eigið ofsóknarbrjálæði sökum lífsstíls síns og gapandi tómarúmið sem arfleiðin hefur skilið eftir. Þetta er á marga vegu eins og leikstjórinn og handritshöfundurinn Josh Trank hafi fengið gífurlegan innblástur frá lokaþriðjungi The Irishman og ofið hann saman við smá áhrif frá David-tvennunni Cronenberg og Fincher.
Trank skrifar bæði og leikstýrir og nýtur góðs frá öllum leikurum sem prýða flotta kvikmyndatöku (þar sem leikið er með lýsingar á ný eins og sóst sé eftir Fincher-væb). Þau Linda Cardellini og Kyle Machlachlan sjá vel um að koma með aðeins meiri mannúð og skilning til áhorfandans um hvað er að gerast í hausnum á lykilmanninum. Matt Dillon tekur sig þarna fínt út líka sem pappakassakarakter sem er gangandi táknmynd fyrra lífsstíl glæpaforingjans.
Hardy er allur í fókus og með því að hafa hann í miðju sögunnar, missandi vitið, eru góð fræ til staðar til að leggja fram yfirdrifna karakterstúdíu, sem hér er stefnt að því að gera. Leikstjórinn reynir að ýta aðeins hugarástandi Capone nærri einhverju sem líkist hrollvekju. Ljóti gallinn er sá að handritið verður fljótlega pínu einhæft og skilur ekki mikið rými eftir fyrir ítarlegri brenglun. Myndin er brött og dalar aldrei í flæði, enda of súrt og gott að fylgjast með sumum svipbrigðunum sem Hardy kemur með. Hann argar, slefar, skítur þó og gargar í mjög þunnri samantekt á því hver maðurinn var og hvernig unnið er úr hans persónulegu uppgjöri.
Annars vegar á þó Trank skilið að fá gulrót fyrir þennan stórfurðulega tón sem yfirgnæfir myndina (og fylgir sjálfsagt með þessum performans frá Hardy), en sérkennilega vill leikstjórinn að sé sama og hlegið að Capone út alla myndina með útréttum handlegg og vísifingri. Sumir gætu sagt að varla annað sé hægt, enda hljómar Hardy í hlutverki kalkaða Capone eins og röddin sækist í E.T. ef hún væri í túlkun Nick Nolte.
En rétt eins og þegar Hardy matreiddi óbeislaðan leiksigur í Venom með því einu að busla í humarbúri, nær þessi breski, fjölhæfi fagmaður að vera sígrípandi, skemmtilegur og sterkur til gláps. Hann er engum líkur þegar kemur að skúrkum, vitleysingum eða hörðum fjöndum og kemur sig vel út að þeir Trank hafi náð að dansa svona furðuvel og kómískt saman.
Capone er þriðja – þó tæknilega séð önnur mynd Trank og er hann vissulega í smá „kombakk“ gír eftir að hafa setið í Hollywood-fangelsinu eftir allt húrrandi klúðrið sem myndaðist við gerð Fant4stic sem kom út 2015. Það er greinilega engin tilviljun heldur að Trank taki það sérstaklega fram í (reyndar óþörfum opnunar-kreditlista) að hann hafi klippt þessa kvikmynd sjálfur einn. Og hananú.
Capone er rétt skref fram fyrir Trank á við sem sýnir ofar öðru ágætis vinkil á athyglisverðu viðfangsefni – sem Trank ber fram af miklu öryggi með þessa áherslu hans á eymdina, lágstemmdu kómíkina og „body horror“ hlutann. Heildin græðir þó lítið á litlum b-söguþræði sem Trank piprar inn þarna á milli og vonast eftir áhrifaríkum árangri með honum í lokaskoti myndarinnar. Sú lending gekk ekki.
Myndin skautar hjá á þessum 100 mínútum og er fjarri því að vera tímasóun, en vissulega viðburðalítil, býsna þunn og með lítið bit.